Jarðgas hefur óvænt fundist á Svalbarða, og það án þess að ætlunin hafi verið að leita að gasi. Olíu- og námafélagið Store Norske skoðar nú þann möguleika að hefja þar gasvinnslu, að því er fram kemur í blaðinu Nordlys í Tromsö.
Félagið var að bora könnunarholur í Aðventudal skammt frá Longyearbyen vegna tilraunaverkefnis norskra stjórnvalda um að geyma koltvísýring í jarðlögum neðanjarðar á Svalbarða. Átta holur voru boraðar en öllum að óvörum fór ein þeirra að blása gasi þegar komið var niður á 700 metra dýpi.
„Gasfundurinn er í sjálfu sér stórmerkilegur og við munum nú íhuga hvort það geti verið arðbært að nýta það," segir Morten Often, jarðfræðingur hjá Store Norske, í viðtali við Nordlys. Store Norske hyggst nú bora fleiri holur til að kanna hversu stór gaslindin er.
Jarðgas er víða mikilvægur orkugjafi, svo sem í Bandaríkjunum. Kolanámur eru á Svalbarða og eru kolin notuð til kyndingar og raforkuframleiðslu á eynni. Jarðgas þykir hins vegar umhverfisvænni orkugjafi.
