Katrín Jónsdóttir og félagar hennar í Umeå komust áfram í bikarnum í dag eftir 7-0 útisigur á Själevads IK. Umeå er þar með búið að vinna tvo 7-0 sigra í röð í sænsku bikarkeppninni.
Katrín spilaði allan leikinn í vörn Umeå í dag en þessi leikur var í 3. umferð bikarkeppninnar. Umeå vann einnig 7-0 sigur í annarri umferðinni en þá var mótherjinn Spölands Vännäs IF. Katrín spilaði ekki þann leik.
Ogonna Chukwudi skoraði þrennu fyrir Umeå í leiknum í kvöld, Jenny Hjohlman skoraði tvö og þær Tuija Hyyrynen og Linnéa Åberg voru með eitt mark hvor.
Þetta gæti verið síðasti möguleikinn fyrir Katrínu að vinna titil á ferlinum. Umeå er ekki í baráttunni um meistaratitilinn og Katrín leggur skóna á hilluna eftir tímabilið.
