Handbolti

Akureyri að semja við Serba

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Akureyri er að styrkja sig fyrir átök vetrarins í N1 deild karla í handbolta og er búið að komast að munnlega samkomulagi við hávaxna serbneska skyttu sem þykir ekki síst öflugur varnarmaður.

Bjarni Fritzson og Heimir Örn Árnason þjálfarar Akureyri staðfestu þetta við Vísi nú í dag en vildu þó lítið segja um leikmanninn þar sem hann er ekki kominn með landvistarleyfi.

Heimir fór að sjá leikmanninn spila og sá í heild fjóra leiki með honum. „Það sem skiptir mig máli er að hann getur spilað vörn. Þetta er flottur jaki, stór og mikill. Hinir strákarnir geta gutlað í sókninni,“ sagði Heimir Örn.

Fyrir utan Serbann hefur Akureyri samið við þrjá nýja leikmenn í sumar. Kristján Orri Jóhannsson sem var markahæsti leikmaður Gróttu í 1. deildinni á síðustu leiktíð er kominn norður ásamt Þrándi Gíslasyni frá Aftureldingu og Gunnari Kristni Þórssyni frá Val.

„Við höfum verið með 25 manna æfingahóp í sumar sem ég er mjög ánægður með,“ sagði Bjarni Fritzson.

„Okkur hefur tekist vel að fylla í þau skörð sem við misstum úr eftir síðasta tímabil. Það vantar ekki unga handboltamenn á Akureyri en það vantar smá reynslu, þess vegna erum við að sækja þennan leikmann út,“ sagði Bjarni sem býst ekki við að fá fleiri leikmenn til liðsins fyrir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×