Helgi Valur Daníelsson og félagar í AIK unnu 3-1 heimasigur á IFK Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Helgi Valur lék allan leikinn á miðju AIK en mörkin skoruðu þeir Kennedy Igboananike, Celso Borges og Martin Kayongo-Mutumba.
AIK klikkaði á tveimur vítum á fyrstu 18 mínútum leiksins (Henok Goitom og Daniel Majstorovic) og lenti síðan 0-1 undir þegar Philip Haglund skoraði úr víti á 24. mínútu.
Liðið kom hinsvegar til baka og mörk á 31., 49. og 80. mínútu tryggðu liðinu öruggan sigur.
Þetta var fyrsta tapa Gautaborgarliðsins síðan 17. mars en liðið var búið að spila sjö deildarleiki í röð án þess að tapa. Hjálmar Jónsson og Hjörtur Logi Valgarðsson voru báðir á bekknum hjá IFK.
Þrátt fyrir sigurinn þá er AIK-liðið enn fimm stigum á eftir IFK Gautaborg í töflunni en AIK var aðeins búið að vinna einn af fyrstu sex leikjum sínum.
