Fótbolti

Ekki alltaf gott að fara frá Dortmund

Sahin mun kveðja Lewandowski í sumar.
Sahin mun kveðja Lewandowski í sumar.
Þýska liðinu Dortmund hefur gengið illa að halda lykilmönnum sínum á síðustu árum en stærstu stjörnur liðsins undanfarin ár hafa oftar en ekki haft vistaskipti eftir að hafa slegið í gegn hjá félaginu.

Shinji Kagawa fór í fyrra, Mario Götze er einnig á förum sem og Robert Lewandowski. Marco Reus gæti einnig verið á förum.

Nuri Sahin gerði slíkt hið sama á sínum tíma er hann samdi við Real Madrid. Þau skipti gengu ekki upp og hann er kominn aftur til Dortmund. Sahin varar menn við því að fara frá félaginu og segir að grasið sé ekki alltaf grænna hinum megin við lækinn.

"Ég er aðeins upp á mitt besta þegar ég er hamingjusamur. Þannig var það ekki hjá Madrid og Liverpool," sagði Sahin en þegar hann fór frá Dortmund var hann besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar.

Hann hefur ekki náð sér á strik síðan hann fór frá félaginu og í dag líkist hann ekki þeim leikmanni sem fór frá Dortmund á sínum tíma.

"Ég vildi koma aftur til Dortmund þar sem ég var ekki hamingjusamur. Hér vil ég vera og vonandi verð ég hér í mörg ár í viðbót."

Framkvæmdastjóri Dortmund, Hans-Joachim Watzke, bendir á að fyrrverandi leikmenn Dortmund nái ekki að blómstra annars staðar.

"Hvaða leikmaður sem hefur yfirgefið okkur er hamingjusamari í dag? Kagawa, Sahin, Barrios? Nei, enginn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×