Umbótaáætlun fellur í skuggann Ólafur Þ. Stephensen skrifar 13. mars 2012 06:00 Athygli almennings beinist þessa dagana að Þjóðmenningarhúsinu, þar sem vissulega fara fram söguleg réttarhöld fyrir Landsdómi. Segja má að vitnaleiðslurnar séu gagnleg upprifjun á ýmsu sem áður var komið fram, ekki sízt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar hafa hins vegar ekki komið fram neinar upplýsingar sem varpa nýju ljósi á einhverja þætti bankahrunsins. Sjaldgæft hlýtur að vera í réttarhöldum að ákæruvaldið leiði fram jafnmörg vitni án þess að vart verði við að vitnisburður þeirra styðji ákæruna. Málareksturinn fyrir Landsdómi undirstrikar hversu afkáralegt og fráleitt það var að ákæra Geir H. Haarde einan fyrir það sem aflaga fór í aðdraganda hruns. Vitnaleiðslurnar sýna þvert á móti fram á að fjármálakerfið, eftirlitið með því og stjórnkerfið sem halda átti utan um það var gallað og sjúkt. Ekki er hægt að draga einn mann til ábyrgðar fyrir það. Það vill stundum gleymast, en þingmannanefndin sem lagði til að Geir og þrír aðrir ráðherrar yrðu ákærðir skilaði jafnframt af sér skýrslu með tugum tillagna að umbótum á stjórnsýslu og löggjöf. Þeim var ætlað að stuðla að því að áfall á borð við bankahrunið endurtaki sig ekki. Alþingi samþykkti með 63 samhljóða atkvæðum þingsályktun byggða á skýrslunni, þar sem kveðið er á um meiri háttar endurskoðun á að minnsta kosti fimmtán lagabálkum, sjálfstæðar rannsóknir á lífeyrissjóðum, sparisjóðum, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og stofnun sjálfstæðrar ríkisstofnunar sem fylgist með þjóðhagsþróun. Kastljósið beinist nú að Landsdómi, en þessi mikilvæga umbótaáætlun fellur í skuggann. Um hana hefur lítið sem ekkert verið fjallað eftir að hún var samþykkt. Í september 2010 dró Fréttablaðið saman umbótatillögur þingmannanefndarinnar í 60 liðum. Þá var hér á þessum stað hvatt til þess að Alþingi og ríkisstjórn settu fram verkefnalista samkvæmt þingsályktunartillögunni með skýrum og skilmerkilegum hætti og gerðu almenningi reglulega grein fyrir því hvernig gengi að hrinda verkefnunum í framkvæmd. Þetta hefur ekki verið gert. Þvert á móti hefur reynzt torvelt fyrir fjölmiðla að nálgast heildaryfirlit um hvernig gengur að hrinda umbótaáætluninni í framkvæmd. Forsætisnefnd Alþingis, stjórnlaganefnd og forsætisráðherra bera samkvæmt þingsályktunartillögunni ábyrgð á verkefninu og nefnd á vegum Alþingis á að hafa eftirlit með að umbótunum sé hrint í framkvæmd. Úrbótunum á að vera lokið 1. október 2012, eftir sex mánuði. Það er ekki langur tími til að klára stórt verkefni sem litlar upplýsingar liggja fyrir um hvernig stendur. Það er tímabært að Alþingi og ríkisstjórnin upplýsi hvernig gengur að koma lagaramma og siðareglum í það horf að ráðin hafi verið bót á ýmsum þeim kerfiságöllum, sem samkvæmt rannsóknarskýrslunni áttu þátt í hruninu. Eins og Alþingi ályktaði er mikilvægt að „allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið." Þessi vinna skiptir margfalt meira máli fyrir framtíðina en réttarhöldin við Hverfisgötuna. Það er því tímabært að kastljósið beinist að henni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Landsdómur Ólafur Stephensen Mest lesið Óheiðarlegur óskalisti Sjálfstæðisflokksins Finnur Ricart Andrason Skoðun Vanræksla á skyldum gagnvart öldruðum og sóun á skattfé Markús Ingólfur Eiríksson Skoðun 21 blár Jón Pétur Zimsen Skoðun Opinberir starfsmenn: Bákn eða bústólpi? Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Blóðmeramálið að kosningamáli Árni Stefán Árnason Skoðun Hægriflokkarnir boða ójöfnuð fyrir íslenska skóla Dagbjört Hákonardóttir Skoðun Kæri húsasmiður og oddviti Samfylkingarnar í Suðurkjördæmi Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun „Að ganga á bak orða sinna“ – Hvað þýðir það eiginlega? Ragnheiður Stephensen Skoðun
Athygli almennings beinist þessa dagana að Þjóðmenningarhúsinu, þar sem vissulega fara fram söguleg réttarhöld fyrir Landsdómi. Segja má að vitnaleiðslurnar séu gagnleg upprifjun á ýmsu sem áður var komið fram, ekki sízt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar hafa hins vegar ekki komið fram neinar upplýsingar sem varpa nýju ljósi á einhverja þætti bankahrunsins. Sjaldgæft hlýtur að vera í réttarhöldum að ákæruvaldið leiði fram jafnmörg vitni án þess að vart verði við að vitnisburður þeirra styðji ákæruna. Málareksturinn fyrir Landsdómi undirstrikar hversu afkáralegt og fráleitt það var að ákæra Geir H. Haarde einan fyrir það sem aflaga fór í aðdraganda hruns. Vitnaleiðslurnar sýna þvert á móti fram á að fjármálakerfið, eftirlitið með því og stjórnkerfið sem halda átti utan um það var gallað og sjúkt. Ekki er hægt að draga einn mann til ábyrgðar fyrir það. Það vill stundum gleymast, en þingmannanefndin sem lagði til að Geir og þrír aðrir ráðherrar yrðu ákærðir skilaði jafnframt af sér skýrslu með tugum tillagna að umbótum á stjórnsýslu og löggjöf. Þeim var ætlað að stuðla að því að áfall á borð við bankahrunið endurtaki sig ekki. Alþingi samþykkti með 63 samhljóða atkvæðum þingsályktun byggða á skýrslunni, þar sem kveðið er á um meiri háttar endurskoðun á að minnsta kosti fimmtán lagabálkum, sjálfstæðar rannsóknir á lífeyrissjóðum, sparisjóðum, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum og stofnun sjálfstæðrar ríkisstofnunar sem fylgist með þjóðhagsþróun. Kastljósið beinist nú að Landsdómi, en þessi mikilvæga umbótaáætlun fellur í skuggann. Um hana hefur lítið sem ekkert verið fjallað eftir að hún var samþykkt. Í september 2010 dró Fréttablaðið saman umbótatillögur þingmannanefndarinnar í 60 liðum. Þá var hér á þessum stað hvatt til þess að Alþingi og ríkisstjórn settu fram verkefnalista samkvæmt þingsályktunartillögunni með skýrum og skilmerkilegum hætti og gerðu almenningi reglulega grein fyrir því hvernig gengi að hrinda verkefnunum í framkvæmd. Þetta hefur ekki verið gert. Þvert á móti hefur reynzt torvelt fyrir fjölmiðla að nálgast heildaryfirlit um hvernig gengur að hrinda umbótaáætluninni í framkvæmd. Forsætisnefnd Alþingis, stjórnlaganefnd og forsætisráðherra bera samkvæmt þingsályktunartillögunni ábyrgð á verkefninu og nefnd á vegum Alþingis á að hafa eftirlit með að umbótunum sé hrint í framkvæmd. Úrbótunum á að vera lokið 1. október 2012, eftir sex mánuði. Það er ekki langur tími til að klára stórt verkefni sem litlar upplýsingar liggja fyrir um hvernig stendur. Það er tímabært að Alþingi og ríkisstjórnin upplýsi hvernig gengur að koma lagaramma og siðareglum í það horf að ráðin hafi verið bót á ýmsum þeim kerfiságöllum, sem samkvæmt rannsóknarskýrslunni áttu þátt í hruninu. Eins og Alþingi ályktaði er mikilvægt að „allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið." Þessi vinna skiptir margfalt meira máli fyrir framtíðina en réttarhöldin við Hverfisgötuna. Það er því tímabært að kastljósið beinist að henni.