Danska liðið Silkeborg mun hafa gert Jóni Daða Böðvarssyni samningstilboð samkvæmt dönskum fjölmiðlum.
Jón Daði hefur verið einn besti leikmaður Selfyssinga síðustu tímabil og hafa nokkur lið á Norðurlöndunum sýnt honum mikinn áhuga.
Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður hans, segir að hann sé nú staddur í Svíþjóð þar sem hann muni æfa með Djurgården í tíu daga. Þá er norska liðið Viking einnig sagt hafa augastað á kappanum.
Jón Daði var lánaður til AGF í Danmörku í fyrra og var svo í lykilhlutverki með Selfossi í Pepsi-deild karla í sumar.
Bjarni Þór Viðarsson er nú á mála hjá Silkeborg.
Jón Daði með tilboð frá Silkeborg
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
