Sem fyrr trónir Ytri-Rangá á toppnum þrátt fyrir að mikið hafi hægt á veiðinni þar milli vikna. Þannig gaf síðasta vika 186 laxa en vikan á undan var frábær því þá veiddust 575 laxar í ánni. Heildarveiðin stendur nú í 3.693 löxum.
Í Eystri-Rangá eru 2.610 laxar komnir á land og gaf vikuveiðin 158 fiska sem er svipað og vikuna á undan. Veiðin í Miðfjarðará var með miklum ágætum, raunar mjög góð en áin er komin í 1.474 laxa. Þar veiddust 148 laxar í síðustu viku sem er betra en vikuna á undan. Svipaða sögu er að segja af Selá í Vopnafirði. Þar veiddust 152 laxar í síðustu viku og eru 1.404 laxar komnir á land. Veiðin í Haffjarðará í síðustu viku var aðeins lakari en vikuna á undan. Þar komu nú 47 laxar á land og í heildina hafa veiðst 1.130 laxar í ánni.
Mjög hefur hægt á veiðinni í Langá en vikan gaf alls 27 laxa samanborið við 97 vikuna á undan og 131 fyrir tveimur vikum. Heildarveiðin stendur í 957 löxum. Veiðin í Langá hefur verið góð undanfarin ár en þó er ágætt í huga að frá 1974 hefur hún sjö sinnum verið undir 1.000 löxum. Minnst var veiðin árið 1984 þegar 610 laxar veiddust í ánni.
Hofsá heldur ágætis dampi

Hofsá í Vopnafirði heldur enn ágætis dampi og sem fyrr er hún eina áin, af þessum stóru, sem bætir sig milli ára. Heildarveiðin er komin í 932 laxa en á sama tíma í fyrra var hún 844 laxar. Vikan gaf 44 laxa í Hofsá sem er svipað og vikuna á undan.
Enn reitist upp lax í Elliðaánum því í síðustu viku veiddist 21 lax. Allt stefnir þó í að þetta verði lélegasta laxveiðisumarið í Elliðaánum síðan árið 2004 en þá var heildarveiðin 645 laxar. Þróunin í Haukadalsá er svipuð en þar er heildarveiðin komin í 466 laxa. Alls veiddust 20 laxar í ánni í síðustu viku og líkt og í Elliðaánum stefnir allt í að sumarið verði það lakasta í Haukadalsá síðan árið 2004 þegar 455 laxar veiddust í ánni.
Í Þverá og Kjarrá gaf vikan 53 laxa sem er besta vikuveiðin síðan í byrjun ágúst. Nú eru 738 laxar komnir á land í ánum. Þrátt fyrir ágætis vikuveiði er líklega óhætt að slá því föstu að þetta sumar verði það lélegasta síðan mælingar hófust árið 1974 í Þverá og Kjarrá. Fram að þessu var lélegasta veiðin ánum árið 1984 þegar 1.082 laxar veiddust í heildina.
Alls veiddust 46 laxar í Laxá í Kjós í síðustu viku og er heildarveiðin aðeins 448 laxar. Frá árinu 1974 hafa einungis tvisvar veiðst minna en 700 laxar í Laxá í Kjós, það var árið 1996 þegar 629 laxar veiddust og árið 1994 þegar 683 laxar komu á land.
Lítið kraftaverk í Aðaldalnum

Fimm laxar veiddust í Laxá á Ásum í síðustu viku og líkt og víða annars staðar er ljóst að veður hefur sett strik í reikninginn þar. Heildarveiðin er 198 laxar og morgunljóst að þetta verður lélegasta veiðisumar í Ásunum frá 1974. Lakasta árið fram að þessu var árið 1999 þegar 430 laxar veiddust.
Hér geta áhugasamir rýnt í veiðitölur Landssambands Veiðifélaga.
trausti@frettabladid.is