Guðjón Baldvinsson og Kristinn Steindórsson voru báðir á skotskónum með Halmstad í sænsku b-deildinni í kvöld. Halmstad vann þá 3-0 heimasigur á Umeå og er enn með í baráttunni um annað sætið í deildinni sem hefur beint sæti í sænsku úrvalsdeildinni. Guðjón átti stórleik og kom að öllum þremur mörkunum en hann var með eitt mark og tvær stoðsendingar í leiknum.
Kristinn Steindórsson kom Halmstad í 1-0 á 40. mínútu eftir stoðsendingu frá Guðjóni Baldvinssyni og Guðjón bætti síðan við öðru marki af löngu færi aðeins þremur mínútum síðar.
Guðjón lagði síðan upp mark fyrir Antonio Rojas á 61. mínútu leiksins en þetta er í fyrsta sinn í sumar sem hann nær því að gefa tvær stoðsendingar í sama leiknum. Guðjóni var skipt útaf á 77. mínútu en kristinn kláraði leikinn.
Guðjón hefur nú skorað þrettán mörk í 19 leikjum í sænsku b-deildinni á tímabilinu en Kristinn var að skora sitt fimmta mark í sínum tuttugasta leik.
