Alræðisríkið í Landakoti Guðmundur Andri Thorsson skrifar 27. júní 2011 06:00 Þeir voru með ýmsu móti kennararnir mínir í Vogaskóla. Einn grét í tímum. Annar var stundum kenndur og fór einu sinni að segja okkur frá alveg pottþéttri aðferð sem hann kynni við að sigra alltaf í fjárhættuspili en til allrar hamingju var ég of lélegur í reikningi til að ná að tileinka mér fræðin; annar stærðfræðikennari niðurlægði valda nemendur jafnan uppi við töflu svo að aðrir nemendur skulfu af ótta; einn fór alltaf að raða borðum áður en hann tók æðiskast; um andlit annars fóru jafnan bros-kippir áður en hann hóf að grýta í okkur krítum; einn var fjarverandi heilu og hálfu kennslustundirnar því að hann var að tefla við félaga sinn inni á kennarastofu … Það gekk á ýmsu: við vorum náttúrlega agaleg eða öllu heldur agalaus og sérhver kennari þurfti að finna upp sínar aðferðir við að ná athygli okkar og koma okkur í gegnum þetta. Til dæmis hún Þórný blessunin Þórarinsdóttir sem kenndi í barnaskólanum: hún tók suma krakkana heim með sér eftir skóla og lét þá læra við eldhúsborðið heima hjá sér því að hún sá að það var ekki passað upp á þetta nógu vel heima hjá þeim, af ýmsum ástæðum. Það eru líka til sögur um kærleiksverk gagnvart börnum sem áttu erfitt. Vogaskóli var fínn skóli þótt hann væri aldrei „fínn" skóli. Eða var það kannski einmitt þess vegna. Þar ríkti kannski hálfgerð ringulreið á köflum kringum alla þessa hressu krakka og misupplögðu kennara og sumt var þar alls ekki í lagi en sögurnar úr Landakotsskóla eru af einhverju allt öðru tagi. Þær eru skelfilegar. Það er erfitt að trúa því að áratugum saman hafi dafnað í hjarta Reykjavíkur önnur eins illska og nú er komið á daginn að var á margra vitorði. Klassískt dæmiVið skulum muna að nú er skólinn breyttur – virtur og ágætur skólamaður er þar orðinn skólastjóri og katólska kirkjan rekur hann ekki lengur. Hinu verður þó ekki neitað að viðbrögð skólanefndar við frásögnum fórnarlamba í Fréttatímanum voru ekki rétt – fókusinn var þar rangur: harmaður var skaði skólans en ekki skaði þeirra sem fyrir ofbeldinu urðu og ofbeldið upplifðu: nefndin talar í yfirlýsingu um „misyndisverk einstaklinga við skólann á fyrri tíð" en hefði fremur átt að beina sjónum að fórnarlömbum þessara einstaklinga og biðja þá afsökunar fyrir hönd skólans sem þrátt fyrir allt á sína sögu sem þarf að horfast í augu við. Það verður að hreinsa andrúmsloftið á Landakotstúninu. Það verður erfitt. Manni sýnist að í skólanum hafi ríkt sjúkt andrúmsloft, magnað upp á markvissan hátt af fólki til að sýna og efla vald sitt á öfugsnúinn og andstyggilegan hátt. Börn eru valdalaus. Þeim er eiginlegt að hlýða foreldrum, kennurum, hópnum. Þau aðlagast alls konar ástandi og til lítils að hlamma sér í háan siðferðissöðul núna yfir þeim sem fóru í gegnum skólann án þess að verða fyrir aðkasti – stóðu aðgerðarlaus hjá eða tóku jafnvel þátt í eineltinu. Öll þessi börn eru fórnarlömb. Meðal þess versta sem hægt er að gera sig sekan um í uppeldi er að senda börnum margföld skilaboð – börn eru næm á slíkt. Auðvitað vita flest börn að það er ljótt að stríða minni máttar – jafnvel þótt þau taki þátt í slíku, annaðhvort teymd af eigin hvötum eða til að falla inn í hópinn, sem er algengara. En þegar sjálfur kennarinn hefur forgöngu um eineltið og kvikindisskapinn þá fara ekki lengur saman siðaboð og gerðir og úr því þarf að lesa sem getur reynst snúið fyrir sjö eða átta ára huga. Þá verða börnin ringluð. Það er kennarinn sem veit, hann ræður – er þá rétt að gera það sem er rangt? Sum verða kvíðin, sum lamast, draga sig inn í skel sína, sum taka þátt, sum komast í náðina hjá kennaranum, sem notar þessar klassísku aðferðir á markvissan hátt til að öðlast algjört vald yfir ráðvilltum hópnum. Margrét Müller er klassískt dæmi um einræðisherra og bekkirnir hennar eru klassískt dæmi um alræðisríki. Og hegðun barnanna klassískt dæmi um hjarðhegðun í alræðisríki. Sumir krakkar forðuðu sér. Sum urðu ekki vör við neitt. Og sumir krakkar sögðu frá heima hjá sér – kannski er erfiðast að horfast í augu við það fyrir samfélagið í heild. Því skólastarfið hélt bara áfram óbreytt áratugum saman eins og ekkert hefði í skorist – eins og þetta ætti bara að vera svona. Hélt fólk það? Þarna stóð alræðisríki í hjarta bæjarins og var sagður eftirsóknarverður staður börnum þótt fjöldi manns vissi um aðferðirnar sem notaðar voru til að skapa þrælsóttann. Hvers vegna? Gæti hugast að meinlokan um „agann" hafi byrgt fólki sýn? Það var víst svo gott hljóð í tímum. Það voru víst ekki lætin í frímínútum. Skólinn var annálaður fyrir góðan aga. Nema þetta var bara óvart vondur agi. Agi er í lagi ef átt er við reglusemi og virðingu fyrir öðrum og sjálfum sér en ótti er vond tilfinning. Agi er aldrei markmið í sjálfu sér. Ótti gerir engum börnum gott en mörgum illt. In nomine paedofiliiViðbrögð katólsku kirkjunnar einkennast af fáti og afneitun og vitna í senn um sektarvitund og forherðingu. Um allan heim er verið að fletta ofan af óhæfuverkum þjóna þessarar kirkju, hvernig þeir hafa níðst á börnum sem þeim hefur verið trúað fyrir af grandalausu fólki. Pedófílía virðist svo landlæg innan þessarar stofnunar að hið kauðalega káf íslenskra þjóðkirkjuklerka bliknar hjá þeim glæpum, án þess að gert sé lítið úr alvöru þess. Frásagnirnar sem birst hafa í Fréttatímanum af glæpum kirkjunnar þjóna í tengslum við Landakotsskóla eru vitaskuld þess eðlis að kirkjan getur ekki reynt að halda áfram að færa þessa vitnisburði um illskuna í eigin ranni úr einni skúffunni í aðra í læstu skrifborði eins og hún hefur augljóslega gert fram til þessa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Hæstvirtur dómsmálaráðherra, við ætlumst til meira af þér Matthías Kormáksson Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Þeir voru með ýmsu móti kennararnir mínir í Vogaskóla. Einn grét í tímum. Annar var stundum kenndur og fór einu sinni að segja okkur frá alveg pottþéttri aðferð sem hann kynni við að sigra alltaf í fjárhættuspili en til allrar hamingju var ég of lélegur í reikningi til að ná að tileinka mér fræðin; annar stærðfræðikennari niðurlægði valda nemendur jafnan uppi við töflu svo að aðrir nemendur skulfu af ótta; einn fór alltaf að raða borðum áður en hann tók æðiskast; um andlit annars fóru jafnan bros-kippir áður en hann hóf að grýta í okkur krítum; einn var fjarverandi heilu og hálfu kennslustundirnar því að hann var að tefla við félaga sinn inni á kennarastofu … Það gekk á ýmsu: við vorum náttúrlega agaleg eða öllu heldur agalaus og sérhver kennari þurfti að finna upp sínar aðferðir við að ná athygli okkar og koma okkur í gegnum þetta. Til dæmis hún Þórný blessunin Þórarinsdóttir sem kenndi í barnaskólanum: hún tók suma krakkana heim með sér eftir skóla og lét þá læra við eldhúsborðið heima hjá sér því að hún sá að það var ekki passað upp á þetta nógu vel heima hjá þeim, af ýmsum ástæðum. Það eru líka til sögur um kærleiksverk gagnvart börnum sem áttu erfitt. Vogaskóli var fínn skóli þótt hann væri aldrei „fínn" skóli. Eða var það kannski einmitt þess vegna. Þar ríkti kannski hálfgerð ringulreið á köflum kringum alla þessa hressu krakka og misupplögðu kennara og sumt var þar alls ekki í lagi en sögurnar úr Landakotsskóla eru af einhverju allt öðru tagi. Þær eru skelfilegar. Það er erfitt að trúa því að áratugum saman hafi dafnað í hjarta Reykjavíkur önnur eins illska og nú er komið á daginn að var á margra vitorði. Klassískt dæmiVið skulum muna að nú er skólinn breyttur – virtur og ágætur skólamaður er þar orðinn skólastjóri og katólska kirkjan rekur hann ekki lengur. Hinu verður þó ekki neitað að viðbrögð skólanefndar við frásögnum fórnarlamba í Fréttatímanum voru ekki rétt – fókusinn var þar rangur: harmaður var skaði skólans en ekki skaði þeirra sem fyrir ofbeldinu urðu og ofbeldið upplifðu: nefndin talar í yfirlýsingu um „misyndisverk einstaklinga við skólann á fyrri tíð" en hefði fremur átt að beina sjónum að fórnarlömbum þessara einstaklinga og biðja þá afsökunar fyrir hönd skólans sem þrátt fyrir allt á sína sögu sem þarf að horfast í augu við. Það verður að hreinsa andrúmsloftið á Landakotstúninu. Það verður erfitt. Manni sýnist að í skólanum hafi ríkt sjúkt andrúmsloft, magnað upp á markvissan hátt af fólki til að sýna og efla vald sitt á öfugsnúinn og andstyggilegan hátt. Börn eru valdalaus. Þeim er eiginlegt að hlýða foreldrum, kennurum, hópnum. Þau aðlagast alls konar ástandi og til lítils að hlamma sér í háan siðferðissöðul núna yfir þeim sem fóru í gegnum skólann án þess að verða fyrir aðkasti – stóðu aðgerðarlaus hjá eða tóku jafnvel þátt í eineltinu. Öll þessi börn eru fórnarlömb. Meðal þess versta sem hægt er að gera sig sekan um í uppeldi er að senda börnum margföld skilaboð – börn eru næm á slíkt. Auðvitað vita flest börn að það er ljótt að stríða minni máttar – jafnvel þótt þau taki þátt í slíku, annaðhvort teymd af eigin hvötum eða til að falla inn í hópinn, sem er algengara. En þegar sjálfur kennarinn hefur forgöngu um eineltið og kvikindisskapinn þá fara ekki lengur saman siðaboð og gerðir og úr því þarf að lesa sem getur reynst snúið fyrir sjö eða átta ára huga. Þá verða börnin ringluð. Það er kennarinn sem veit, hann ræður – er þá rétt að gera það sem er rangt? Sum verða kvíðin, sum lamast, draga sig inn í skel sína, sum taka þátt, sum komast í náðina hjá kennaranum, sem notar þessar klassísku aðferðir á markvissan hátt til að öðlast algjört vald yfir ráðvilltum hópnum. Margrét Müller er klassískt dæmi um einræðisherra og bekkirnir hennar eru klassískt dæmi um alræðisríki. Og hegðun barnanna klassískt dæmi um hjarðhegðun í alræðisríki. Sumir krakkar forðuðu sér. Sum urðu ekki vör við neitt. Og sumir krakkar sögðu frá heima hjá sér – kannski er erfiðast að horfast í augu við það fyrir samfélagið í heild. Því skólastarfið hélt bara áfram óbreytt áratugum saman eins og ekkert hefði í skorist – eins og þetta ætti bara að vera svona. Hélt fólk það? Þarna stóð alræðisríki í hjarta bæjarins og var sagður eftirsóknarverður staður börnum þótt fjöldi manns vissi um aðferðirnar sem notaðar voru til að skapa þrælsóttann. Hvers vegna? Gæti hugast að meinlokan um „agann" hafi byrgt fólki sýn? Það var víst svo gott hljóð í tímum. Það voru víst ekki lætin í frímínútum. Skólinn var annálaður fyrir góðan aga. Nema þetta var bara óvart vondur agi. Agi er í lagi ef átt er við reglusemi og virðingu fyrir öðrum og sjálfum sér en ótti er vond tilfinning. Agi er aldrei markmið í sjálfu sér. Ótti gerir engum börnum gott en mörgum illt. In nomine paedofiliiViðbrögð katólsku kirkjunnar einkennast af fáti og afneitun og vitna í senn um sektarvitund og forherðingu. Um allan heim er verið að fletta ofan af óhæfuverkum þjóna þessarar kirkju, hvernig þeir hafa níðst á börnum sem þeim hefur verið trúað fyrir af grandalausu fólki. Pedófílía virðist svo landlæg innan þessarar stofnunar að hið kauðalega káf íslenskra þjóðkirkjuklerka bliknar hjá þeim glæpum, án þess að gert sé lítið úr alvöru þess. Frásagnirnar sem birst hafa í Fréttatímanum af glæpum kirkjunnar þjóna í tengslum við Landakotsskóla eru vitaskuld þess eðlis að kirkjan getur ekki reynt að halda áfram að færa þessa vitnisburði um illskuna í eigin ranni úr einni skúffunni í aðra í læstu skrifborði eins og hún hefur augljóslega gert fram til þessa.
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun