Sumarbústaðagettó Pawel Bartozsek skrifar 10. júní 2011 00:00 Það ríkir einstök og merkileg aðskilnaðarstefna í ferðamálum á Íslandi. Innfæddir keyra allt sjálfir, tjalda og gista í bústöðum. Útlendingarnir eru keyrðir og látnir gista á hótelum. Það þykir sérstakt markmið að bjóða hinum erlendu gestum sem dýrasta gistingu en hinum innlendu sem ódýrastan valkost við hana. Einn slíkur valkostur er sumarbústaðurinn. Bústaðir fjarri þéttbýli geta auðvitað verið hið yndislegasta fyrirbæri, en stundum má velta því fyrir sér hvort þeir geri mannlífi á landinu endilega mikið gagn. Um það má efast. Margur borgarbúinn sem fer í sumarbústað er auðvitað ekki að „fara út á land”, ekkert frekar en sá sem millilendir Kastrup getur með góðri samvisku sagst hafa „kíkt aðeins til Danmerkur“. Borgarbúinn kaupir matinn sinn að stórum hluta áður en hann leggur af stað, hugsanlega kannski í einhverri keðju í Borgarnesi eða á Selfossi, hann tekur með sér hálfa búslóðina í skottinu, drekkur síðan bjórinn sinn í nýju umhverfi og eldar sama matinn og venjulega, en þó kannski á annarri pönnu en hann á að venjast. Borgarbúinn fer svo heim eftir tvo til þrjá daga, treður ruslinu sínu í gljáandi svarta poka og síðan skilar hann pokunum í bláan gám við afleggjarann. Það er nú oft það mesta sem innlendir gestir skilja eftir sig á ferðalögum. Rusl í svörtum pokum. Og kannski einhverja smápeninga fyrir bensíni og hamborgurum í vegasjoppu við hringveginn. Ímyndum okkur nú að hluti þessara þúsunda gesta sem til dæmis gista í uppsveitum Árnessýslu myndi gista á Selfossi, Flúðum, Reykholti eða að Laugarvatni. Þessir bæir yrðu þá menningarbæir með iðandi mannlífi, fjölbreyttum veitingastöðum, tónleikum og daglegum listaviðburðum. En fjarlægðin gerir mönnum erfitt fyrir. Veitingastaður þarf viðskiptavini, helst í göngu- eða leigubílafjarlægð því annars þurfa viðskiptavinirnir að sleppa að drekka áfengi, sem er vont fyrir staðinn og leiðinlegt fyrir þá. Eða að þeir keyri fullir heim sem er leiðinlegt og vont fyrir alla. Erfitt er að stunda metnaðarfulla matargerð án fólks sem getur notið hennar. Fyrir vikið er hamborgarinn með frönskunum langalgengasti maturinn á landinu. Hamborgarinn er minnsti samnefnari matarsmekks allra vegfarenda. Hann er fljótgerður, allir sumarstarfsmenn kunna að gera hann og allir aðrir kunna að borða hann. Hann hentar fínt í hálftímastopp á bensínstöð, en það er í mörgum tilfellum því miður sá hámarkstími sem borgarbúinn eyðir utan bíls eða bústaðar. Á Íslandi eru um tólf þúsund sumarbústaðir. Það gerir einn bústað á hverja 26 íbúa. Það er auðvitað slatti. En til samanburðar eru hlutfallslega tvöfalt fleiri slík „önnur heimili“ á hinum Norðurlöndunum. Möguleiki til vaxtar er því umtalsverður. En án þess að maður hafi neitt um það að segja þá velti ég því fyrir mér hvort aukningin gæti ekki komið í auknum mæli í orlofsíbúðum sem byggðar eru inni á núverandi þéttbýlisstöðum, eða mjög nálægt þeim, frekar en í sérstökum sumarbústaðahverfum utan þeirra. Maður saknar þess stundum að ferðast ekki meira um Ísland eins og best er að ferðast um útlönd: með föt til skiptanna, tannbursta og kreditkort. Helst í rútu eða flugvél. Án þess að þurfa að burðast með rúmföt og nokkurra daga birgðir af mat. Og auðvitað er það manni ekki bannað. En rödd buddunnar er hávær og standi einhverjum til dæmis til boða gisting á vegum stéttarfélags sem oft er hagstæðari en húsaleiga á eigin íbúð, þá þykir það óneitanlega bruðl að splæsa í tuttugu þúsund króna hótelnótt. Menn troða því sænginni, koddanum og fimm bónuspokum í skottið og bruna massasáttir upp í Miðhúsaskóg. Það er tvöföld ferðamálastefna á Íslandi. Útlendingarnir eiga að gista á hótelum, borða mat á veitingastöðum og sofa í uppábúnu. Við, hinir innfæddu, eigum helst að þjónusta okkur sjálf. Þessi aðskilnaðarhyggja er ekki góð fyrir neinn. Það myndi styrkja allan infrastrúktur túrismans og efla rekstrargrundvöllinn ef Íslendingar nýttu sér ferðaþjónustuna betur. Ef við viljum fleiri hótel, tíðari flug- og rútuferðir, metnaðarfyllri veitingastaði og fleiri tónlistarhátíðir um allt land, þá þurfum við að fækka ferðamálastefnum: Úr tveimur í eina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Íþróttahreyfingin glímir við skattyfirvöld Kristinn Jónasson Skoðun Samfélagstilraunin sem lítið er fjallað um Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Er nóg fyrir ríkið að það vilji vita – á þinn kostnað? Páll Steingrímsson Skoðun 24. janúar og risastórt vistspor Íslands Stefán Jón Hafstein Skoðun Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Yfir 3000 íbúðir á næstu árum Bragi Bjarnason Skoðun
Það ríkir einstök og merkileg aðskilnaðarstefna í ferðamálum á Íslandi. Innfæddir keyra allt sjálfir, tjalda og gista í bústöðum. Útlendingarnir eru keyrðir og látnir gista á hótelum. Það þykir sérstakt markmið að bjóða hinum erlendu gestum sem dýrasta gistingu en hinum innlendu sem ódýrastan valkost við hana. Einn slíkur valkostur er sumarbústaðurinn. Bústaðir fjarri þéttbýli geta auðvitað verið hið yndislegasta fyrirbæri, en stundum má velta því fyrir sér hvort þeir geri mannlífi á landinu endilega mikið gagn. Um það má efast. Margur borgarbúinn sem fer í sumarbústað er auðvitað ekki að „fara út á land”, ekkert frekar en sá sem millilendir Kastrup getur með góðri samvisku sagst hafa „kíkt aðeins til Danmerkur“. Borgarbúinn kaupir matinn sinn að stórum hluta áður en hann leggur af stað, hugsanlega kannski í einhverri keðju í Borgarnesi eða á Selfossi, hann tekur með sér hálfa búslóðina í skottinu, drekkur síðan bjórinn sinn í nýju umhverfi og eldar sama matinn og venjulega, en þó kannski á annarri pönnu en hann á að venjast. Borgarbúinn fer svo heim eftir tvo til þrjá daga, treður ruslinu sínu í gljáandi svarta poka og síðan skilar hann pokunum í bláan gám við afleggjarann. Það er nú oft það mesta sem innlendir gestir skilja eftir sig á ferðalögum. Rusl í svörtum pokum. Og kannski einhverja smápeninga fyrir bensíni og hamborgurum í vegasjoppu við hringveginn. Ímyndum okkur nú að hluti þessara þúsunda gesta sem til dæmis gista í uppsveitum Árnessýslu myndi gista á Selfossi, Flúðum, Reykholti eða að Laugarvatni. Þessir bæir yrðu þá menningarbæir með iðandi mannlífi, fjölbreyttum veitingastöðum, tónleikum og daglegum listaviðburðum. En fjarlægðin gerir mönnum erfitt fyrir. Veitingastaður þarf viðskiptavini, helst í göngu- eða leigubílafjarlægð því annars þurfa viðskiptavinirnir að sleppa að drekka áfengi, sem er vont fyrir staðinn og leiðinlegt fyrir þá. Eða að þeir keyri fullir heim sem er leiðinlegt og vont fyrir alla. Erfitt er að stunda metnaðarfulla matargerð án fólks sem getur notið hennar. Fyrir vikið er hamborgarinn með frönskunum langalgengasti maturinn á landinu. Hamborgarinn er minnsti samnefnari matarsmekks allra vegfarenda. Hann er fljótgerður, allir sumarstarfsmenn kunna að gera hann og allir aðrir kunna að borða hann. Hann hentar fínt í hálftímastopp á bensínstöð, en það er í mörgum tilfellum því miður sá hámarkstími sem borgarbúinn eyðir utan bíls eða bústaðar. Á Íslandi eru um tólf þúsund sumarbústaðir. Það gerir einn bústað á hverja 26 íbúa. Það er auðvitað slatti. En til samanburðar eru hlutfallslega tvöfalt fleiri slík „önnur heimili“ á hinum Norðurlöndunum. Möguleiki til vaxtar er því umtalsverður. En án þess að maður hafi neitt um það að segja þá velti ég því fyrir mér hvort aukningin gæti ekki komið í auknum mæli í orlofsíbúðum sem byggðar eru inni á núverandi þéttbýlisstöðum, eða mjög nálægt þeim, frekar en í sérstökum sumarbústaðahverfum utan þeirra. Maður saknar þess stundum að ferðast ekki meira um Ísland eins og best er að ferðast um útlönd: með föt til skiptanna, tannbursta og kreditkort. Helst í rútu eða flugvél. Án þess að þurfa að burðast með rúmföt og nokkurra daga birgðir af mat. Og auðvitað er það manni ekki bannað. En rödd buddunnar er hávær og standi einhverjum til dæmis til boða gisting á vegum stéttarfélags sem oft er hagstæðari en húsaleiga á eigin íbúð, þá þykir það óneitanlega bruðl að splæsa í tuttugu þúsund króna hótelnótt. Menn troða því sænginni, koddanum og fimm bónuspokum í skottið og bruna massasáttir upp í Miðhúsaskóg. Það er tvöföld ferðamálastefna á Íslandi. Útlendingarnir eiga að gista á hótelum, borða mat á veitingastöðum og sofa í uppábúnu. Við, hinir innfæddu, eigum helst að þjónusta okkur sjálf. Þessi aðskilnaðarhyggja er ekki góð fyrir neinn. Það myndi styrkja allan infrastrúktur túrismans og efla rekstrargrundvöllinn ef Íslendingar nýttu sér ferðaþjónustuna betur. Ef við viljum fleiri hótel, tíðari flug- og rútuferðir, metnaðarfyllri veitingastaði og fleiri tónlistarhátíðir um allt land, þá þurfum við að fækka ferðamálastefnum: Úr tveimur í eina.
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun
Hvenær er lögbrot lögbrot og hvenær er lögbrot ekki lögbrot!! Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun