Áður en út í það er farið er þó rétt að staldra aðeins við og hugleiða hvort þetta sé nú nauðsynlegt og hver áhættan er, því árangurinn er ekki alltaf eins og vonast er eftir í upphafi og erfitt að snúa við blaðinu ef illa fer.
Nú segir svo frá að þessi tíska sé á undanhaldi. Meira að segja í Hollywood vilja leikstjórar ekki lengur leikkonur sem geta ekki sýnt eðlileg svipbrigði vegna bótox í andlitinu á þeim. Sú er nefnilega náttúra þessa efnis að lama vöðva og eftir því sem magnið er meira, því erfiðara er að hreyfa andlitsvöðvana eðlilega.
Í dag er það afturhvarf til hins náttúrulega sem gildir eða þá að þær aðgerðir sem gerðar eru sjáist helst ekki. Þetta á til dæmis við um leiseraðgerðir (e. peeling) sem felast í því að húðin er meðhöndluð með þeim hætti að efstu lög hennar fara af.

Hins vegar segja hinir sömu fræðingar að best sé að nota olíur eins og Argane sem taka á inn eins og lýsið, eina matskeið á dag, en hún er rík af andoxunarefnum. Talandi um lýsið, þá er það einnig talið gott fyrir húðina.
Ég hitti einu sinni franska leikkonu sem sagði íslenskar konur svo unglegar af því að þær tækju inn lýsi. Einnig má nefna Rosier muscat (Rosa rubiginosa) en hana á að bera á hrukkurnar, til dæmis undir augun. Hún er hins vegar lengi að fara inn í húðina og betra að nota hana á kvöldin.
Eins má nefna te gert úr Rooibos sem er drukkið heitt og á að viðhalda æskublómanum. Á endanum er það því innri fegurðin sem þykir best, í yngingarfræðum eins og öðru, í báðum merkingum þeirra orða.
bergb75@free.fr