Upphaf málsins má rekja til þess að Greenpeace setti myndband inn á YouTube þar sem maður sást borða KitKat sem er ein af vörum Nestlé með fyrrgreindum skilaboðum. Nestlé fór í hart og sagðist myndu fjarlægja myndbandið ef Greenpeace gerði slíkt ekki.
Eftir þetta fór allt á fullt og netnotendur tóku málið upp á sína arma. Brátt höfðu 93.000 manns skráð sig inn á Facebook síðu Nestlé þar sem þeir létu fyrirtækið heyra það óþvegið. Skömmum ringdi yfir fyrirtækið sem var kallað ýmsum ónefnum eins og skrímsli eða yndi andskotans.
Nestlé gerði þau grundvallarmistök að svara gagnrýninni fullum hálsi. Lét Nestlé vita að sér væri mjög misboðið yfir þessum ónefnum sem fyrirtækið var nefnt. Og þá fyrst varð fjandinn laus á Facebook.
Í umfjöllun um málið í Jyllands Posten segir Paul Seaman sérfræðingur í almannatengslum að fyrst Nestlé hafi valið að vera á netsíðum á borð við Facebook verði fyrirtækið að hefja sig upp yfir fjöldan. Í staðinn hafi það ákveðið að stinga höfðinu í gin ljónsins. Nestlé eigi að fylgja þeim reglum sem gilda á Facebook ef það vilji verja orðstír sinn.