Audi bílaverksmiðjurnar seldu 554 939 bíla á fyrri helmingi ársins en 465 804 á fyrri helmingi síðasta árs. Salan á fyrri helmingi ársins er meiri en á metárinu 2008, segir í frétt á norska viðskiptavefnum e24.no.
„Við höfum náð aukningu um 7,5% frá árinu 2008, sem var okkar sterkasta ár," segir Peter Schwarzenbauer, stjórnarmaður í Audi, í fréttatilkynningu.
Tekjur Audiverksmiðjunnar voru 17,6 milljarðar evra á fyrri helmingi ársins, eða um 21% meira en í fyrra. Upphæðin er tæpir 2800 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir að Audi framleiði 12 nýjar undirtegundir í ár, þar á meðal A1 og A7 Sportback.
