Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Lilleström, skoraði sitt þriðja mark í jafn mörgum leikjum er liðið sigraði Strömsgodset, 3-1, í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Björn átti góðan leik í framlínunni og skapaði liðið sér mörg dauðafæri í leiknum.
Björn þótti með betri mönnum vallarins en markið hans kom á 71.mínútu leiksins. Markið hans var þriðja og síðasta mark liðsins í leiknum en honum var svo skipt útaf í kjölfarið á 78. mínútu.
Stefán Logi Magnússon stóð að venju allan leikinn á milli stanganna hjá Lilleström og stóð sig vel.