Hluthafar í breska olíufélaginu BP hafa tapað 60 milljörðum punda eða yfir 11 þúsund milljörðum króna síðan að olíulekinn í Mexíkóflóa hófst í apríl síðastliðnum.
Hlutir í BP hafa fallið um 50% á þessum tíma og ekki er enn séð fyrir endan á því falli. Beinn kostnaður BP við að reyna að stöðva lekann og eftirköst hans hafa þegar kostað félagið 2 milljarða dollara og fer sá kostnaður vaxandi eftir því sem fleiri leggja fram skaðabótakröfur á hendur félaginu.
Bloomberg fréttaveitan segir að þessi kostnaður geti numið nær 40 milljörðum dollara þegar upp er staðið. Alls hafa 230 skaðabótakröfur komið fram á hendur BP.