Lið Sölva Geirs Ottesen, FCK, vann afar öruggan sigur á Esbjerg í dag, 3-1, og er sem fyrr á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar.
Dame Ndoye skoraði tvö mörk fyrir FCK en Zdenek Pospech var með eitt. Jesper Lange skoraði mark Esbjerg.
Sölvi Geir byrjaði leikinn á bekknum en kom inn á 40. mínútu. Þetta var hans fyrsti leikur með liðinu í nokkurn tíma en hann hefur verið frá þar sem konan hans átti von á barni sem nú er fætt.
FCK er með 22 stiga forskot á toppnum og svo gott sem búið að vinna deildina.