GAIS og IFK Gautaborg gerðu í kvöld markalaust jafntefli í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Eyjólfur Héðinsson var í byrjunarliði GAIS en Hallgrímur Jónasson sat allan leikinn á bekknum.
Hjá Gautaborg voru þeir Ragnar Sigurðsson, Hjálmar Jónsson og Theodór Elmar Bjarnason allir í byrjunarliðinu og léku allan leikinn.
GAIS er í sjötta sæti deildarinnar með sautján stig eftir tólf leiki en IFK Gautaborg í því þrettánda með þrettán stig.
Þá var einnig leikið í sænsku B-deildinni. Norrköping endurheimti toppsætið með 2-0 útisigri á Väsby en Gunnar Þór Gunnarsson var ekki í leikmannahópi fyrrnefnda liðsins að þessu sinni.