Lewis Hamilton segir að keppnisbíll Red Bull liðsins sé fáránlega fljótur og því erfiður viðureignar. Hann sagði þetta í spjalli við breska blaðamenn.
Sebastian Vettel og Mark Webber eru ökumenn Red Bull og Vettel var í forystuhlutverki í síðasta móti, þangað til að kerti á vélinni fór að láta illa og hann missti afl.
"Red Bull bíllinn er fáránlega hraðskreiðari en aðrir bílar. Það er brjálæði. Niðurtogið sem þeir höfðu í fyrra var helmingi meira en við höfðum um tíma og líka undir lok ársins, þó við höfum unnið tvö mót."
Fernando Alsonso virtist eiga eitthvað inni í mótinu í Barein og ætlaði að sækja að Vettel á lokasprettinum að eigin sögn. Hamilton segir að Ferrari sé nær Red Bull, um hálfri sekúndu en McLaren.
"Við erum á svipuðum slóðum og Mercedes að mínu mati. Við gerðum aðeins betur í Barein, en það er okkar að vera fyrri til en Mercedes að færa okkur skör ofar", sagði Hamilton.
Næsta mót er í Ástralíu um næstu helgi, á götum Melbourne.