Handbolti

Björgvin Páll: Eigum fullt af efnilegum strákum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin Páll varði vel í dag.
Björgvin Páll varði vel í dag. Mynd/Stefán

„Við höldum standard út báða þessa leiki og höldum haus hér í dag gegn liði sem er slakara en við. Þess utan yfirspilum við þá algjörlega og erum orðnir það góðir að við sýnum alltaf hvað við getum," sagði markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson sem átti fínan leik að Ásvöllum í dag.

„Þessi leikur var gott próf fyrir okkar karakter. Hvernig við mætum undirbúnir í svona leiki og hvernig við klárum þá. Við hefðum getað skemmt Makedóníuleikinn með einhverju rugli í dag en gerðum það ekki og stöndum uppi með fjögur góð stig."

Íslenska liðið stendur ákaflega vel að vígi í sínum riðli í undankeppni EM og framundan í sumar eru síðan hörkuleikir þegar meðal annars Makedónía kemur í heimsókn.

„Sumarið verður skemmtilegt og ekki ónýtt að fá tvo hörkuleiki gegn Norðmönnum og Makedónum með þriggja daga millibili. Bæði lið eiga harma að hefna á móti okkur en við mætum tilbúnir," sagði Björgvin Páll sem er mjög ánægður með alla nýliðana í landsliðinu.

„Þetta er frábær hópur og það er öllum tekið vel sem koma í hópinn. Það skiptir engu máli þó við missum menn út því við eigum fullt af efnilegum strákum eins og Aron, Sigurberg og Rúnar. Þeir svara kallinu og standa fyrir sínu. Það var magnað að sjá hvað þeir voru góðir til að mynda út í Makedóníu," sagði Björgvin Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×