Handbolti

Ágúst tekur við Levanger í Noregi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Gróttu.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Gróttu. Mynd/Anton

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari karlaliðs Gróttu, hefur samþykkt að taka að sér þjálfun norska kvennaliðsins Levanger nú í sumar.

Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi en hann tilkynnti leikmönnum þetta nú í kvöld.

„Þetta er klappað og klárt. Levanger leikur í efstu deild í Noregi og er nú í tíunda sæti deildarinnar. Ég lít þó sem á að þetta lið eigi heima um miðja deild sem er reyndar með þeim sterkustu í heimi. Ég lít því á þetta sem mikið tækifæri fyrir mig."

Ágúst átti í viðræðum við forráðamenn félagsins í sumar og var þá annar tveggja sem kom til greina í starfið þá. Hinn þjálfarinn, var hins vegar valinn þá en liðinu gekk ekki betur en svo að honum var sagt upp störfum um áramótiin.

„Þeir höfðu samband við mig fyrir rúmri viku síðan og þetta er búið að ganga fljótt fyrir sig. Þetta var þó stór ákvörðun fyrir mig enda er ég að fara út með fimm manna fjölskyldu. En við erum ákveðin í því að kýla á þetta og nú get ég einbeitt mér að því að vera bara í þjálfun og engu öðru."

Hann útilokar ekki að fá íslenska leikmenn til liðs við félagið. „Það kemur vel til greina. Það eru tveir leikmenn sem fara í lok tímabilsins og félagið ætlar að fá þrjá í þeirra stað. Ég mun fara fljótlega út og ræða öll þessi mál."

Ágúst kom Gróttu upp í efstu deild karla nú í vetur og segir hann að það hafi verið erfitt að þurfa að kveðja félagið nú.

„Það var það erfiða við þessa ákvörðun. Þessi vetur var mjög skemmtilegur og það hefur gott uppbyggingarstarf átt sér stað. En ég tel þetta spennandi kost fyrir mig og ef til vill skref að einhverju stærra og meira."

„Ég skil mjög sáttur við Gróttu og hef engar áhyggur af því að þeir finni sér ekki þjálfara. Það hefur verið mjög gott starf unnið á Seltjarnarnesi og ríkir mikill metnaður í herbúðum félagsins fyrir næsta tímabil."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×