Austurríski bankinn Raiffeisen Zentralbank (RZB) mátti horfa upp á að allur hagnaður bankans í fyrra þurrkaðist út eftir afskriftir vegna tapa á íslensku bönkunum og Lehman Brothers. Hefur bankinn samið um ríkisaðstoð upp á 1,75 milljarða evra eða um 280 milljarða kr. af þessum sökum.
Alls námu afskriftir RZB vegna íslensku bankanna og Lehman 1,66 milljarði evra að því er segir í frétt Reuters um málið. Ekki kemur fram hvernig þessi upphæð skiptist á milli fyrrgreindra banka.
Slæm afkoma á síðasta ári gerði það að verkum að Moody´s lækkaði lánshæfi bankans og fjárhagslegan styrk hans um tvö stig. Meðal röksemda Moody´s var að búast mætti við meiri töpum á lánum bankans í ár vegna fjármálakreppunnar.
RZB er annar stærsti lánveitandi, meðal banka, í Evrópu næst á eftir UniCredit.