Millibilsástand Einar Már Jónsson skrifar 2. október 2009 06:00 Ég hef áður sagt frá því hvernig nýjar starfsgreinar fara nú að blómstra á þessum krepputímum og afsanna það svartagallsraus andstæðinga frjálshyggjunnar að menn þurfi að verða atvinnulausir ef þeim er sagt upp á einum stað. Nefndi ég sem dæmi hina nýju leigubíla sem ætlaðir eru konum einum og gera ekki síst út á þann nýja markað sem olíufurstafrúr og -dætur frá Austurlöndum mynda þegar þær koma í innkaupaferð til Parísar. Önnur stétt manna hefur einnig skotið upp kollinum að undanförnu, þeir kalla sig hljómmiklu en ákaflega sakleysislegu nafni sem því miður er ekki hægt að þýða á íslensku án þess að úr því verði dálítið klúður: þeir eru sem sé „stjórnendur millibilsástands" En öfugt við hinar rósrauðu bílstýrur, sem hafa ekkert á móti því að um starf þeirra sé fjallað í fjölmiðlum, láta þeir lítið á sér bera og forðast sem mest að vera í sviðsljósinu. Best er að sem fæstir viti um þá aðrir en þeir sem ráða þá til vinnu. Þessir menn komu fyrst fram á eitthvert hálfrökkvað sjónarsvið upp úr 1990, þegar fyrirtæki fóru að sameinast í stórum stíl. Hlutverk þeirra var þá að finna út hvaða háttsettir starfsmenn kynnu að vera um of í hinni nýju samsteypu, fórnarlömb þeirra voru einkum þeir sem fengu meira en 100 000 evrur í árslaun. Fyrir einar tíu þúsund evrur sáu þessir „stjórnendur millibilsástands" svo um að koma þessum mönnum burt með lagni, því á þeim var enn tekið með silkihönskum á þessum tíma, oftast með loforðum um starf annars staðar. En með kreppunni hafa þessir „stjórnendur" mjög svo fært út kvíarnar og ganga nú til verka í jötunmóð. Þeir bjóða fyrirtækjum upp á „endurskipulag" þar sem allt er innifalið, einkum og sér í lagi fækkun starfsmanna, þ.e.a.s. hópuppsagnir og allt sem þeim fylgir, frá upphafi til enda, og taka fyrir það verk þúsund evrur á dag. En síðan eiga þeir langt og flókið verk fyrir höndum. Þeir þurfa að kynna starfsmönnunum „endurskipulagið" með lagni, finna út hverja er auðveldast að losa sig við (vegna aldurs eða heilsufars t.d.), ræða við fulltrúa stéttarfélaga og svara óþægilegum spurningum þeirra og athugasemdum á réttan hátt, setja fram trúverðugar áætlanir fyrir þá sem missa vinnuna á miðjum starfsaldri, vísa þeim kannske á einhver „námskeið" eða bjóða þeim upp á einhverja vinnu sem þeir geta ekki þegið, þannig að hægt sé að skella allri skuldinni á þá, leggja á ráðin um varnir ef einhver skyldi kæra, og síðast en ekki síst semja uppsagnarbréfin og senda þau. En ekki getur hver sem er orðið „stjórnandi millibilsástands", það starf er ekki heiglum hent og krefst bæði þekkingar og sérþjálfunar. Þeir sem gegna því - og hafa reyndar sett á fót sérstakar stofur eins og lögfræðingar - verða að þekkja lög um atvinnu og félagsmál eins og eigin vasa þannig að þeir geti haft hverja einustu lagagrein og lögkrók á hraðbergi, þeir þurfa að vera þaulvanir samskiptum við fjölmiðlamenn og geta matað þá á því sem þeir vilja, látið þá gína yfir hvaða áætlun sem er um nýja atvinnu fyrir þá sem eru reknir, þeir verða að hafa greiðan aðgang að „prúðmennunum" svokölluðu sem dæma í ýmsum vinnudeilum, þeir þurfa að vera útsjónarsamir um það hvernig hægt sé að fá lögreglu til að grípa inn í ef þeim finnst það nauðsynlegt, þeir verða að geta tekið því með jafnaðargeði ef verkamenn sem eru að missa vinnuna skyldu taka upp á því að loka þá inni í skrifstofu nótt og dag í mótmælaskyni eins og gerst hefur, jafnvel dreita þá inni, og umfram allt, þeir verða að geta horft á sjálfa sig í spegli kinnroðalaust, hvað sem gerist, helst með gleði og ánægju. Fyrir eigendur fyrirtækja er það mikil hagræðing að geta leitað til þessara manna, sem kannske mætti líka kalla „uppsagnasérfræðinga". Þeir þurfa þá ekki lengur að fylgjast með því sem er að gerast í einstökum atriðum og geta t.d. alveg leitt hjá sér hvenær uppsagnarbréfin eru send og hverjum. Með þessu móti sleppa þeir í rauninni við að horfa framan í þá sem verið er að reka, menn sem hafa kannske unnið hjá fyrirtækinu af trúmennsku árum saman og eiga sér einskis ills von. Það er því engin furða þótt þessi nýja starfstétt eflist nú mjög, án nokkurra auglýsinga. Kunnugir menn telja að undanfarin tíu ár hafi þessum „sérfræðingum í millibilsástandi" fjölgað um ein fimmtán til tuttugu prósent á ári, og eftir þeim fregnum að dæma sem nú koma sífellt í blöðum og útvarpi, eru allar líkur á að stéttin haldi áfram að blómstra um ókomna tíma. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Varist eftirlíkingar Franklín Ernir Kristjánsson Skoðun Halldór 16.11.2024 Halldór Íslenskan okkar allra Bryndís Haraldsdóttir Skoðun Nærsýni afinn og baunabyssan Ragnar Þór Pétursson Skoðun Ríkið sviptir 30.400 manns grundvallarréttindum sínum Yngvi Sighvatsson Skoðun Aðgangur bannaður Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Einkavæðing súrefnisins Björn Þorláksson Skoðun Opið bréf til næsta heilbrigðisráðherra Teitur Guðmundsson Skoðun Miðflokkurinn hefur lausnir á húsnæðismarkaði Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Kennari í verkfalli Hólmfríður Þorgeirsdóttir Skoðun
Ég hef áður sagt frá því hvernig nýjar starfsgreinar fara nú að blómstra á þessum krepputímum og afsanna það svartagallsraus andstæðinga frjálshyggjunnar að menn þurfi að verða atvinnulausir ef þeim er sagt upp á einum stað. Nefndi ég sem dæmi hina nýju leigubíla sem ætlaðir eru konum einum og gera ekki síst út á þann nýja markað sem olíufurstafrúr og -dætur frá Austurlöndum mynda þegar þær koma í innkaupaferð til Parísar. Önnur stétt manna hefur einnig skotið upp kollinum að undanförnu, þeir kalla sig hljómmiklu en ákaflega sakleysislegu nafni sem því miður er ekki hægt að þýða á íslensku án þess að úr því verði dálítið klúður: þeir eru sem sé „stjórnendur millibilsástands" En öfugt við hinar rósrauðu bílstýrur, sem hafa ekkert á móti því að um starf þeirra sé fjallað í fjölmiðlum, láta þeir lítið á sér bera og forðast sem mest að vera í sviðsljósinu. Best er að sem fæstir viti um þá aðrir en þeir sem ráða þá til vinnu. Þessir menn komu fyrst fram á eitthvert hálfrökkvað sjónarsvið upp úr 1990, þegar fyrirtæki fóru að sameinast í stórum stíl. Hlutverk þeirra var þá að finna út hvaða háttsettir starfsmenn kynnu að vera um of í hinni nýju samsteypu, fórnarlömb þeirra voru einkum þeir sem fengu meira en 100 000 evrur í árslaun. Fyrir einar tíu þúsund evrur sáu þessir „stjórnendur millibilsástands" svo um að koma þessum mönnum burt með lagni, því á þeim var enn tekið með silkihönskum á þessum tíma, oftast með loforðum um starf annars staðar. En með kreppunni hafa þessir „stjórnendur" mjög svo fært út kvíarnar og ganga nú til verka í jötunmóð. Þeir bjóða fyrirtækjum upp á „endurskipulag" þar sem allt er innifalið, einkum og sér í lagi fækkun starfsmanna, þ.e.a.s. hópuppsagnir og allt sem þeim fylgir, frá upphafi til enda, og taka fyrir það verk þúsund evrur á dag. En síðan eiga þeir langt og flókið verk fyrir höndum. Þeir þurfa að kynna starfsmönnunum „endurskipulagið" með lagni, finna út hverja er auðveldast að losa sig við (vegna aldurs eða heilsufars t.d.), ræða við fulltrúa stéttarfélaga og svara óþægilegum spurningum þeirra og athugasemdum á réttan hátt, setja fram trúverðugar áætlanir fyrir þá sem missa vinnuna á miðjum starfsaldri, vísa þeim kannske á einhver „námskeið" eða bjóða þeim upp á einhverja vinnu sem þeir geta ekki þegið, þannig að hægt sé að skella allri skuldinni á þá, leggja á ráðin um varnir ef einhver skyldi kæra, og síðast en ekki síst semja uppsagnarbréfin og senda þau. En ekki getur hver sem er orðið „stjórnandi millibilsástands", það starf er ekki heiglum hent og krefst bæði þekkingar og sérþjálfunar. Þeir sem gegna því - og hafa reyndar sett á fót sérstakar stofur eins og lögfræðingar - verða að þekkja lög um atvinnu og félagsmál eins og eigin vasa þannig að þeir geti haft hverja einustu lagagrein og lögkrók á hraðbergi, þeir þurfa að vera þaulvanir samskiptum við fjölmiðlamenn og geta matað þá á því sem þeir vilja, látið þá gína yfir hvaða áætlun sem er um nýja atvinnu fyrir þá sem eru reknir, þeir verða að hafa greiðan aðgang að „prúðmennunum" svokölluðu sem dæma í ýmsum vinnudeilum, þeir þurfa að vera útsjónarsamir um það hvernig hægt sé að fá lögreglu til að grípa inn í ef þeim finnst það nauðsynlegt, þeir verða að geta tekið því með jafnaðargeði ef verkamenn sem eru að missa vinnuna skyldu taka upp á því að loka þá inni í skrifstofu nótt og dag í mótmælaskyni eins og gerst hefur, jafnvel dreita þá inni, og umfram allt, þeir verða að geta horft á sjálfa sig í spegli kinnroðalaust, hvað sem gerist, helst með gleði og ánægju. Fyrir eigendur fyrirtækja er það mikil hagræðing að geta leitað til þessara manna, sem kannske mætti líka kalla „uppsagnasérfræðinga". Þeir þurfa þá ekki lengur að fylgjast með því sem er að gerast í einstökum atriðum og geta t.d. alveg leitt hjá sér hvenær uppsagnarbréfin eru send og hverjum. Með þessu móti sleppa þeir í rauninni við að horfa framan í þá sem verið er að reka, menn sem hafa kannske unnið hjá fyrirtækinu af trúmennsku árum saman og eiga sér einskis ills von. Það er því engin furða þótt þessi nýja starfstétt eflist nú mjög, án nokkurra auglýsinga. Kunnugir menn telja að undanfarin tíu ár hafi þessum „sérfræðingum í millibilsástandi" fjölgað um ein fimmtán til tuttugu prósent á ári, og eftir þeim fregnum að dæma sem nú koma sífellt í blöðum og útvarpi, eru allar líkur á að stéttin haldi áfram að blómstra um ókomna tíma.