Handbolti

Elvar hættur hjá FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Elvar Örn Erlingsson, fyrrum þjálfari FH.
Elvar Örn Erlingsson, fyrrum þjálfari FH. Mynd/Daníel

Elvar Örn Erlingsson er hættur sem þjálfari meistaraflokks karla í handbolta hjá FH eftir tveggja ára starf.

„Við mátum stöðuna þannig að það væri kominn tími til að fá nýtt kjöt á beinin," sagði Elvar í samtali við Vísi. „Ég átti eitt ár eftir af samningi mínum en þetta var niðurstaðan."

Helsta ástæðan, segir Elvar, var sú að leikmenn voru ekki allir sáttir við hans störf. „Sitt sýnist hverjum eins og þar stendur. Það kom í ljós að það var ekki einhugur meðal leikmanna um mín störf. Því var ákveðið að láta gott heita og finnst mér ekki grundvöllur til að halda áfram á þeim formerkjum."

„En svona er lífið í boltanum og ég er alveg sáttur við þessi málalok."

Hann segist nú ætla að taka sér frí frá þjálfun. „Ég er búinn að vera þjálfari meistaraflokksins í tvo vetur og þar áður var ég með unglingaflokkinn. Ég er búinn að koma að handboltanum í FH með einum eða öðrum hætti undanfarin þrettán ár. Það getur vel orðið lenging á því síðar meir. Við skiljum sáttir í bili."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×