Formúlu 1 lið BMW gekk afleitlega í kappakstrinum í Mónakó í gær á ári sem átti að vera til titilsóknar. Allt hefur gengið á afturfótunum hjá BMW og liðið er hvergi nærri toppnum. BMW mætir með nýjan loftdreifi og KERS kerfið í næsta mót sem er í Tyrklandi
"Við verðum betri í Tyrklandi, en vissulega hefur þetta verið snúið og erfitt hjá okkur. Við vorum á siglingu upp á við í þrjú ár, en núna gengur ekkert. Við vitum hvað við getum og við verðum að hugsa jákvætt", sagði Mario Thiessen framkvæmdarstjóri BMW.
Ökumenn BMW og Toyota voru í tómu basli í Mónakó, á æfingum, tímatöku og keppninni.
"Við vorum í vandræðum með að ná hita í dekkin, þar sem það var ekki nógu mikið niðurtog frá yfirbyggingu bílsins. Það gekk því illa í tímatökunni og við sátum eftir og vorum eins og farþegar í keppninni", sagði Thiessen.
Robert Kubica er stiglaus á árinu, en hann leiddi meistarakeppnina um tíma í fyrra, en Nick Heidfeld er með 6 stig í stgakeppni ökumanna.
Ekkert gengur upp hjá BMW
