Stefán Logi Magnússon þurfti að fara meiddur af velli er lið hans, Lilleström, tapaði fyrir Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í kvöld, 2-1.
Stefán Logi fór af velli á 28. mínútu eftir að hafa lent í samstuði við leikmann Stabæk strax á tíundu mínútu. Skömmu síðar skoraði Stabæk fyrsta mark leiksins og vann að lokum sigur.
Þetta var þriðji leikur Stefáns Loga í byrjunarliði Lilleström en liðið hafði unnið hina tvo.
Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður í liði Lilleström á 72. mínútu. Pálmi Rafn Pálmason var í byrjunarliði Stabæk en var skipt af velli á 82. mínútu.
Stabæk er í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig, sextán stigum éftir toppliði Rosenborg. Lilleström er í ellefta sætinu með 26 stig.
Í Danmörku tapaði OB nokkuð óvænt fyrir Silkeborg, 3-1. Rúrik Gíslason kom inn á sem varamaður í liði OB á 53. mínútu.
Þá var einnig leikið í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. GAIS og Djurgården gerðu 1-1 jafntefli en Eyjólfur Héðinsson lék allan leikinn í liði GAIS. Hallgrímur Jónasson og Guðjón Baldvinsson voru ekki í leikmannahópi liðsins.
Þá gerðu Malmö og Helsingborg markalaust jafntefli. Ólafur Ingi Skúlason var ekki í hópnum hjá Helsingborg.
