Handbolti

Ætlum ekkert að leggjast niður og gefast upp

Guðmundur Karlsson þjálfari kvennaliðs FH segir Stjörnuliðið hafa á að skipa tveimur af bestu leikmönnum deildarinnar og þá verði að stöðva ef FH ætli að eiga möguleika á bikarnum í dag.

"Ég er mjög ánægður að vera kominn með þetta unga FH-lið í úrslitin. Þessi leið í úrslitaleikinn hefur verið dýrmæt reynsla fyrir þessar stelpur og við erum að byggja á nýjum grunni. FH-klúbburinn er á mikilli uppleið og umgjörðin að verða betri og betri," sagði Guðmundur í samtali við Vísi.

"Það engin launung að við erum litla liðið. Stjarnan hefur verið að vinna titla, en það höfum við ekki gert. FH vann síðast titil 1982 og við erum í þeirri stöðu að við þurfum að sætta okkur við að vera litla liðið, en það þýðir ekki að við ætlum í þennan leik til að leggjast niður og gefast upp. Auðvitað koma einhverjir kaflar í leiknum þar sem menn munu halda að við eigum ekki möguleika, en ég held að mitt lið verði með í þessum leik og muni eiga tækifæri til að vinna," sagði Guðmundur.

"Stjarnan er með tvo af bestu leikmönnum deildarinnar með Florentinu í markinu og Alinu sem skyttu. Þetta eru tveir leikmenn sem eru í sérklassa og við þurfum að stöðva þær. Það er mitt að stilla því þannig upp að þær eigi ekki sinn besta dag en svo kemur stóra prófið í úrslitaleiknum," sagði þjálfarinn í samtali við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×