Ofurfjárfestirinn Warren Buffett hafði ástæðu til að brosa út að eyrum um helgina en fjárfestingafélag hans, Bershire Hathaway, hagnaðist um 3,24 milljarða dollara, eða rúma 400 milljarða kr., á þriðja ársfjórðung. Er þetta meiri hagnaður en hjá Goldman Sachs.
Uppgjörið var birt aðfararnótt laugardagsins en stór hluti af hagnaði Warren Buffett er raunar til komin vegna þekktrar stöðutöku Buffett í Goldman Sachs skömmu eftir síðustu áramót. Þá fékk Buffett kauprétt á 5 milljarða dollara virði af hlutum í Goldman Sachs þegar enginn annar vildi snerta við bankanum. Gengishagnaður hans af þeim kauprétti nemur nú rúmlega 2 milljörðum dollara.
Hinn mikli uppgangur á hlutabréfamörkuðum heimsins undanfarna mánuði olli því að Bershire Hathaway þrefaldaði hagnað sinn á þriðja ársfjórðung m.v. sama tímabil í fyrra.
Félagið fór illa út úr fjármálakreppunni á síðasta ári eins og flestir aðrir. Var þá jafnvel rætt um að „véfréttin frá Omaha" eins og Buffett er stundum kallaður hefði misst næmni sína á gróðatækifæri. Uppgjörið nú sýnir að svo er ekki.