Handbolti

Elísabet: Það er ekkert annað í boði en að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir
Elísabet Gunnarsdóttir Mynd/Anton Brink

„Það er mun skemmtilegra að vera að spila þegar titilinn vinnst," sagði Elísabet Gunnarsdóttir, línumaður Stjörnunnar, sem skoraði fimm mörk þegar Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í dag.

Elísabet meiddist á hendi í fyrra og gat þá ekkert verið með á lokasprettinum. "Það miklu meira stressandi að vera að horfa á leikinn og miklu betra að vera inn á vellinum," sagði Elíasbet.

„Lokatölurnar gefa engan veginn rétta mynd af leiknum. Mér fannst þetta vera alveg öruggt eftir að við vorum komnar í 17-10 í hálfleik. Það eina sem við þurftum að gera vara að halda áfram að spila okkar leik," sagði Elísabet sem skoraði 17 mörk úr aðeins 19 skotum í leikjunum þremur í lokaúrslitunum.

„Okkur hefur gengið mjög vel með Framliðið í vetur og allir leikirnir hafa unnist örugglega. Við héldum því bara áfram í þessum þremur leikjum í úrslitunum. Ég veit ekki hvað það er því við spilum bara okkar leik. Það hentar okkur vel að spila á móti Fram en það hentar þeim greinilega ekki að spila á móti Stjörnunni," segir Elísabet.

Stjarnan hefur unnið þrjá Íslandsmeistaratitla í röð og vann nú tvöfalt annað árið í röð.

„Við erum eins og oft hefur komið fram - sigurvegarar. Okkur finnst gaman að vinna og gaman að taka við titlum. Við höldum því bara áfram og stefnan hefur þegar verið sett á að vinna fleiri titla," segir Elísabet og bætir við: „Við erum bara aldar svona upp hérna í Garðabænum. Það á bara að vinna titla hérna og það er ekkert annað í boði," sagði Elísabet að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×