Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no segir að á sama tíma og Standard & Poors hafi tilkynnt um ákvörðun sína í gærkvöldi hafi grísk stjórnvöld fengið skilaboð frá Jean-Claude Trichet bankastjóra evrópska seðlabankans um að þau væru í „verulega þröngri stöðu" og þyrftu að sýna „hugrekki" við að fá stjórn á fjárlögum sínum.
Fjárhagserfiðleikar Grikkja hafa leitt til vangaveltna um að landið muni enda sem „Dubai Evrópu" það er án möguleika á því að standa við skuldbindingar sínar.
Ný stjórn Grikklands lagði fram fjárlög sín í síðasta mánuði en samkvæmt þeim verður 9,1% halli á rekstri ríkissjóðs á næsta ári.
Hinar gífurlegu opinberu skuldir Grikklands og vaxandi halli á fjárlögum hafa leitt til þess að landið hefur verið undir sérstöku fjárlagaeftirliti Evrópusambandsins síðan í apríl í ár. Nú hafa grísk stjórnvöld fengið frest fram til janúar um að setja saman viðbragðaáætlun um efnahagsmálin.