Cristiano Ronaldo hefur tjáð sig opinberlega í fyrsta skipti um yfirvofandi félagaskipti sín til Real Madrid.
Manchester United tilkynnti í morgun að félagið hefði tekið kauptilboði Real Madrid í Ronaldo upp á 93 milljónir evra.
Ronaldo er staddur í Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem hann er í fríi. „Ég heyrði fréttirnar hér í LA. Ég hef einnig heyrt frá mínu fólki að Manchester United hafi tekið tilboðinu. Ég hef einnig heyrt að ég gangist undir læknisskoðun sem er eðlilegt."
Hann segir að sér hafi verið mikill heiður sýndur með tilboði Real Madrid. „Mér er mikill heiður sýndur með því að tvö bestu knattspyrnufélög heims vilja að ég spili með liðum þeirra."
„En þetta er sögulegur samningur. 93 milljónir evra er jú dágóð summa."