Reiknað er með að Sports Direct tapi stærstu hlutabréfaeign sinni í framhaldi af því að stjórnendur Singer & Friedlander banka Kaupþings í Bretlandi yfirtaki hana í dag. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Retailweek.
Sports Direct átti 29% hlut í útivöruversluninni Blacks og 11% í JD Sports Fashion. Í tilkynningu frá JD Sports Fashion í gærkvöldi kom fram að Kaupþing/Singer & Friedlander hefði yfirtekið 11% eignarhlutinn í kjölfar lagadeilu.
Retailweek segir að reiknað sé með að Sports Direct sendi frá sér svipaða tilkynningu til kauphallarinnar í London í dag. Sports Direct hefur þegar afskrifað eign sína í Blacks og segist hafa tapað henni af "bókhaldsástæðum".
Ernst & Young sem eru skiptastjórar Kaupþings í Bretlandi hafa lagt fram beiðni fyrir dómstól um að hann úrskurði að Sports Direct eigi ekki lengur fyrrgreinda hluti.
Kaupþing fjármagnaði að hluta sum kaup Mike Ashley í samkeppnisfélögum hans en Mike á nú 71% hlut í Sports Direct. Þegar Kaupþing fell s.l. haust hófust lagadeilur um eignarhaldið á fyrrgreindum hlutum.