Framtíð Essex Invest, næststærsta fasteignafélags Danmerkur er nú óljós. Stærstu lánadrottnar félagsins eru FIH bankinn og Danske Bank en fjöldi annarra lánastofnana, danskra og erlendra hefur einnig lánað félaginu.
Í frétt um málið á börsen.dk segir að Essex Invest eigi nú í samningaviðræðum við lánadrottna sína og að niðurstaðan úr þeim viðræðum þýði líf eða dauða félagsins. Bókfært virði Essex Invest, sem staðsett er í Árósum, nemur 12,4 milljörðum danskra kr. eða um 310 milljörðum kr.
Poul Steffensen forstjóri Essex Invest er bjartsýnn á að samningar náist við lánasdrottna sem tryggi framtíð félagsins. „Þetta mun heppnast," segir Steffensen.
Samkvæmt heimildum börsen.dk er Essex Invest nú í óformlegri greiðslustöðvun en félagið hefur ekki getað borgað af skuldum sínum síðan í lok september. Steffensen vill ekki tjá sig um það mál.