Franski ökumaðurinn Romain Groesejan tekur við hlutverki Nelson Piquet hjá Renault, sem var rekinn úr sæti ökumanns eftir síðasta kappakstur. Groesejan fær sitt fyrsta tækifæri á Valencia brautinni á Spáni, á sama tíma og Luca Badoer ekur í stað Felipe Massa hjá Ferrari.
Reyndar er fyrsti spretturinn háður því hvort Renault fær þáttttökurétt í mótinu, þar sem liðið var dæmt í eins móts bann fyrir að brjóta af sér í síðustu keppni. Liðið sendi Fernando Alonso af stað í brautina með laust framhjól og varaði hann ekkert við. Endirinn varð sá að dekkið flaug undan og skapaði hættu.
Málið er hið versta fyrir mótshaldara á Spáni, þar sem Alonso hefur mikið aðdráttarafl og verður að sitja af sér mótið að óbreyttu. Renault áfrýjaði ákvörðun dómara og málið veðrur tekið fyrir af FIA á mánudag í París.
Grosejan er í öðru sæti í stigamóti ökumanna í GP 2 mótaröðinni, á eftir Nico Hulkenberg sem er varaökumaður Williams. Sæti fyrir Grosejean hefur þegar verið smíðað í fyrrum bíl Piquet og Frakkinn prófaði bílinn á beinni braut á dögunum, en fyrsti sprettur hans í bílnum verður á föstudagsæfingum á götubrautinni í Valencia annan föstudag.
