Handbolti

Ólafur og Berglind best á árinu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Vilhelm
Mynd/Vilhelm

Handknattleikssamband Íslands hefur opinberað val sitt á handboltafólki ársins 2008. Berglind Hansdóttir markvörður úr Val og Ólafur Stefánsson leikmaður Ciudad Real urðu fyrir valinu.

Hér að neðan má lesa umfjöllun um Berglindi og Ólaf af heimasíðu HSÍ.

Berglind Íris Hansdóttir handknattleikskona er 27 ára gömul, fædd 14. október 1981. Berglind hefur alla tíð leikið með Val nema eitt keppnistímabil en þá reyndi hún fyrir sér í atvinnumennsku í Danmörku. Hún leikur stöðu markvarðar. Berglind hefur verið burðarás í liði Vals og landsliðsins undanfarin ár og er frábær markvörður sem skilar ávallt sínu og er öðrum handknattleikskonum glæsileg fyrirmynd.

Berglind hefur leikið 83 landsleiki og 40 unglingalandsleiki og var meðal annars valinn leikmaður mótsins í undankeppni HM sem fram fór í Póllandi í nóvember.

Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður er 35 ára gamall, fæddur 3.júlí 1973. Ólafur hóf að leika handknattleik með Val ungur að aldri og lék með félaginu upp alla yngri flokkana. Ólafur gerðist atvinnumaður með þýska liðinu Wuppertal 1996, en gekk síðan til liðs við Magdeburg og lék með því liði til ársins 2003 en þá gekk hann til liðs við spænska liðið Ciudad Real.

Í ár vann Ólafur flest öll mót með liði sínu sem hann tók þátt í. Með liði sínu varð Ólafur Evrópumeistari meistaraliða, Spánarmeistari, Konungsbikarmeistari og fl. Ólafur hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins undanfarin ár og leiddi liðið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking. Ólafur leikið 283 landsleiki og skorað í þeim 1337 mörk.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×