Hvað með það? Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi - já, ég er að tala um samninginn, sem ríkisstjórn Íslands hefur brotið með fiskveiðilöggjöfinni - skilgreinir náttúruauðlindir sem þjóðareign. Önnur málsgrein fyrstu greinar samningsins hefur ekki vakið næga athygli, en þar segir: „Allar þjóðir mega ... ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis." Í þessum orðum felst, að upptaka þjóðareignar eins og í Miðbaugs-Gíneu er brot á samningnum. Upptaka eða gróf misskipting þjóðareignarinnar er mannréttindabrot. Þar eð Miðbaugs-Gínea er aðili að alþjóðasamningnum, væri hægt að kæra Obiang forseta fyrir mannréttindanefndinni og einnig ríkisstjórnir hinna landanna, sem nefnd eru að framan, en þó ekki Sádi-Arabíu, þar eð ríkisstjórnin þar hefur ekki undirritað samninginn. Ísland undirritaði samninginn 1968 og staðfesti hann 1979.
Brezki heimspekiprófessorinn Leif Wenar færir að því rök í tímaritinu Philosophy and Public Affairs, að alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi veiti ásamt landslögum færi á að stemma stigu fyrir millilandaverzlun með þýfi. Bandaríkjamenn og aðrir, sem kaupa olíu frá Miðbaugs-Gíneu, eru klárlega að kaupa þýfi. Væri tekið fyrir slík viðskipti, væri grundvellinum kippt undan harðstjórum eins og Obiang forseta og mörgum öðrum og mannréttindabrotum þeirra. Kjarni hugmyndar heimspekingsins er þessi: Eignarréttur þjóðar yfir auðlindum sínum er þegnréttur, mannréttur, og mannréttindi eru algild, svo sem mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveður á um og einnig alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Virðing fyrir mannréttindumÞegar rök Leifs Wenar eru brotin til mergjar, vekur það eftirtekt, hversu óvarlega sumir íslenzkir lögfræðingar hafa frá öndverðu fjallað um fiskveiðistjórnina hér heima. Jafnvel prófessorar í lögum hafa leyft sér að gera lítið úr sameignarákvæðinu í fyrstu grein fiskveiðistjórnarlaganna og með því móti gert sig seka um virðingarleysi gagnvart mannréttindum að alþjóðalögum. Sameignarákvæðið er lykilákvæði, ekki aðeins af almennum réttlætisástæðum, heldur einnig í ljósi algildra lögverndaðra mannréttinda.