Fótbolti

Aragones vill taka Ítali til fyrirmyndar

Gattuso tekur við HM styttunni árið 2006
Gattuso tekur við HM styttunni árið 2006 AFP

Luis Aragones, landsliðsþjálfari Spánverja, segir að spænsku landsliðsmennirnir ættu að taka sér ítalska landsliðið til fyrirmyndar á knattspyrnuvellinum.

Spænska landsliðið hefur verið skipað sannkölluðum úrvalsleikmönnum undanfarin ár, en hefur orð á sér fyrir að missa niður um sig buxurnar á stórmótum.

Aragones segist vilja breyta þessu og horfir til granna þeirra á Ítalíu sem dæmi um lið sem þjappar sér saman og nær árangri.

"Það hafa komið mót þar sem við hefðum átt að komast lengra en við gerðum, en náðum ekki takmörkum okkar. Fyrir stuttu las ég viðtal við leikmann sem sagði að spænska landsliði skorti keppnisskap og það hef ég verið að segja lengi," sagði Aragones á blaðamannafundi í dag, en þjóðirnar leika vináttulandsleik annað kvöld

"Ítalska liðið er skipað sterkum og hæfileikaríkum leimönnum, sem eru líka miklir keppnismenn," sagði Aragones. Hann sagði leikmenn á borð við Gennaro Gattuso vera lifandi dæmi um þetta.

"Gattuso er frábær leikmaður sem alltaf skilar sínu. Hann og nokkrir aðrir í þessu ítalska liði geta kennt okkur mikið um það hvernig á að fórna sjálfum sér fyrir liðið," sagði Aragones.

Spánverjar hafa aðeins einu sinni unnið sigur á stórmóti í knattspyrnu, en það var árið 1964 þegar liðið varð Evrópumeistari eftir 2-1 sigur á Rússum í úrslitaleik í Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×