Handbolti

HSÍ að leita til útlanda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Ágúst með Alfreð Gíslasyni fyrrum landsliðsþjálfara.
Guðmundur Ágúst með Alfreð Gíslasyni fyrrum landsliðsþjálfara. Mynd/Hari
Guðmundur Ágúst Ingvarsson, formaður HSÍ, segir að sambandið sé nú fyrst og fremst að horfa til útlanda hvað varðar ráðningu nýs landsliðsþjálfara.

Aron Kristjánsson hafnaði HSÍ í morgun en fyrir höfðu þrír menn hafnað starfinu, þeir Magnus Andersson, Dagur Sigurðsson og Geir Sveinsson.

„Vissulega er það áfall að menn skuli ekki vera lausir til að fara í þetta starf. Það var áhugi fyrir starfinu hjá þessum mönnum en þeir höfðu bara öðrum hnöppum að hneppa."

Hann segir að það sé engin krísa komin í landsliðsþjálfaramálin. „Nei, langt í frá. Við erum með æfingaleiki í mars en það eru engir alvöruleikir fyrr en í maí."

Guðmundur segir að sambandið sé nú þegar kominn með ákveðinn mann í huga.

„Já, við erum með ákveðinn mann í huga. Við erum farnir að horfa mikið til útlanda og farnir að skanna erlenda markaðinn aftur. En það getur vissulega verið erfitt að finna þjálfara á miðju keppnistímabili hjá félagsliðum í Evrópu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×