Handbolti

Geir og Aron ekki afhuga starfinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka. Mynd/Daníel

Geir Sveinsson og Aron Kristjánsson segja báðir í samtali við Vísi að þeir myndu íhuga málið vandlega ef HSÍ myndi leita til þeirra vegna landsliðsþjálfarastarfsins.

Í dag gaf HSÍ út tilkynningu þess efnis að viðræður við Dag Sigurðsson hefðu siglt í strand og þar með ljóst að hann yrði ekki ráðinn eftirmaður Alfreðs Gíslasonar sem hætti í síðasta mánuði.

Þrír menn voru upphaflega hvað helst orðaðir við starfið. Auk Dags voru það Geir og Aron.

„Ég myndi alltaf íhuga málið vel ef til mín væri leitað," sagði Geir. Hann sagði þó að hann væri þó hættur að hugsa um starfið enda ekkert heyrt í HSÍ til þessa.

„Þegar Alfreð hætti voru ýmis nöfn nefnd til sögunnar og var mitt eitt þeirra. En svo hefur tíminn liðið og maður er bara hættur að spá í þessu og eiginlega orðinn afhuga þessu. Maður þyrfti því eiginlega að gíra sig aftur upp í þennan hugsunargang. Ég er bara að sinna allt öðru í dag."

Aron sagði að hann væri ekki orðinn afhuga starfinu. „Ég myndi taka kaffibolla með Gúnda (Guðmundi Ágústi Ingvarssyni, formanni HSÍ), það er ekki spurning," sagði Aron í léttum dúr.

Aðspurður um hvort að það hefði einhver áhrif á hans stöðu að HSÍ ákvað að ræða við Dag fyrst sagði Aron svo ekki vera.

„Ég virði það vel við HSÍ að það hefur sínar aðferðir í þessum málum. Það eitt að vera orðaður við starf landsliðsþjálfara er heiður út af fyrir sig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×