Fótbolti

Jafnt hjá Sevilla og Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Xavi fagnar jöfnunarmarki Barcelona í kvöld.
Xavi fagnar jöfnunarmarki Barcelona í kvöld. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen lék síðasta rúma hálftímann er Sevilla og Barcelona gerðu 1-1 jafntefli í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Diego Capel kom heimamönnum í Sevilla yfir á 35. mínútu en markið skoraði hann eftir fyrirgjöf Jesus Navas frá hægri. Þetta var fyrsta mark táningsins Capel með aðalliði Sevilla en hann verður tvítugur í næstu viku.

Xavi jafnaði metin á 76. mínútu eftir gott samspil við Lionel Messi sem hafði annars hægt um sig í leiknum.

Úrslitin þýða að Real Madrid getur komið sér í átta stiga forystu á toppi spænsku deildarinnar ef liðið vinnur Valladolid á morgun.

Sevilla stjórnaði leiknum í fyrri hálfleik en innkoma þeirra Ronaldinho og Marquez í hálfleiknum gerði það að verkum að Börsungar komust betur inn í leikinn.

Seydou Keita, leikmaður Sevilla, fékk að líta tvö gul spjöld í síðari hálfleik og þar með rautt. Það var heldur strangur dómur en fyrra gula spjaldið fékk hann eftir heldur sakleysislega baráttu við Eið Smára.

Tveir aðrir leikir fóru fram í spænsku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld. Deportivo og Getafe gerðu 1-1 jafntefli og Villarreal lagði Real Murcia á útivelli, 1-0.

Real Madrid er á toppnum með 53 stig og Barcelona í öðru sæti með 48 stig. Villarreal er í þriðja sætinu með 42 stig, þremur stigum á undan Espanyol sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×