Handbolti

FH vann hádramatískan sigur á Haukum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
FH-ingar fagna sigrinum í leikslok.
FH-ingar fagna sigrinum í leikslok. Mynd/Steinn Vignir

FH er komið í undanúrslit Eimskips-bikarkeppni karla eftir nauman sigur á Haukum, 29-28, í Kaplakrika í dag.

Leikurinn var lengst af í járnum en staðan í hálfleik var 16-14, FH í vil. FH-ingar komust svo í 29-28 þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og var því ekkert mark skorað á síðustu mínútum leiksins.

Haukar fengu þó nokkur tækifæri til að jafna og undir lok leiksins ætlaði allt að sjóða upp úr.

Haukar voru að halda í sókn á lokasekúndunum þegar að Ásbjörn Friðriksson braut á Sigurbergi Sveinssyni. Sá síðarnefndi brást illa við, hrinti Ásbirni og fékk að líta rauða spjaldið fyrir.

Þá varð allt vitlaust á vellinum og fékk Ólafur Guðmundsson, leikmaður FH, einnig að líta rauða spjaldið.

Gísli Jón Þórisson tók aukakastið þegar að leiktíminn var útrunninn en skotið fór hátt yfir markið.

Sigurbergur var markahæstur Hauka með tíu mörk en Guðmundur Pederson skoraði flest mörk FH eða sjö talsins. Ólafur Guðmundsson skoraði sex.

Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk fyrir FH en hann var tekinn úr umferð stóran hluta leiksins.

Þegar þessi lið mættust í deildinni á sama stað þann 5. nóvember síðastliðinn lauk honum einnig með 29-28 sigri FH.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×