Reggina lyfti sér úr fallsvæði ítölsku úrvalsdeildarinnar með 2-1 sigri á Catania sem á einnig í mikilli fallbaráttu. Þá vann AC Milan 2-1 sigur á Inter í borgarslagnum í Mílanó.
Emil Hallfreðsson var á varamannabekk Reggina en kom ekki við sögu í leiknum.
Eftir sigurinn er Reggina í sextánda sæti deildarinnar og því fimmta neðsta með 36 stig en þrjú lið falla úr deildinni. Tvær umferðir eru enn óleiknar.
Catania er nú í sautjánda sæti deildarinnar með 35 stig, einu á undan Parma og tveimur á undan Empoli sem eru í fallsætum.
Livorno er í neðsta sæti með 30 stig en á enn fræðilegan möguleika á að bjarga sér frá falli.
AC Milan færði Rómverjum smá von um ítalska meistaratitilinn þar sem liðið vann 2-1 sigur á toppliði Inter í dag.
Filippo Inzaghi og Kaka komu Milan í 2-0 en Julio Ricardo Cruz minnkaði metin fyrir inter þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka.
Inter er nú með þriggja stiga forystu á Roma sem vann 3-0 útisigur á Sampdoria í dag. Christian Panucci, David Pizzarro og Cicinho skoruðu mörk Roma.
Juventus er í þriðja sæti með 70 stig, ellefu stigum á eftir Iner.
AC Milan er í fjórða sæti með 61 stig en sigurinn í dag var gríðarlega mikilvægur því liðið á í hraðri baráttu við Fiorentina um fjórða sæti deildarinnar og þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.
Fiorentina tapaði fyrir Cagliari á útivelli í dag, 2-1, og er liðið nú einu stigi á eftir AC Milan.
Inter dugir væntanlega sigur gegn annað hvort Siena eða Parma í síðustu tveimur leikjum sínum þar sem liðið er með hagstæðara markahlutfall en Roma.
Roma á eftir að mæta Atalanta á heimavelli og Catania á útivelli.
Önnur úrslit í dag:
Atalanta - Livorno 3-2
Empoli - Udinese 0-1
Lazio - Palermo 1-2
Parma - Genoa 1-0
Siena - Juventus 1-0
Torino - Napoli 2-1
