Bretinn Lewis Hamilton mætti í dag til viðræðna við áfrýjunardómstól FIA í París. Á fundinum var tekin fyrir áfrýjun McLaren vegna ákvörðun dómara á mótinu í Spa á dögunum.
Dómarar mótsins dæmdu sigur af Hamilton eftir að þeir skoðuðu sjónvarpsmyndir af framúrakstri hans á Kimi Raikkönen. Þeir töldu Hamilton brotlegan og gáfu honum 25 sekúndna refsingu eftir mótið. Í staðinn fyrir sigur, þá hlaut hann bronsið og Felipe Massa hjá Ferrari vann mótið.
McLaren menn voru ekki sáttir og áfrýjuðu ákvörðun dómaranna. Málið var tekið fyrir í dag. Lögmenn McLaren lögðu fram gögn og Hamilton vitnaði í málinu. McLaren-menn telja að brotið hafi verið freklega á Hamilton í málinu og leggja helst til grundvallar því sjónarmiði að keppnisstjóri mótsins hafi sagt Hamilton aka löglega.
Áfrýjunardómstóll FIA kallaði til fjölda vitna í dag og úrskurðar í málinu á morgun.
Sjá nánar á kappakstur.is.