Roma varð í kvöld bikarmeistari á Ítalíu annað árið í röð þegar liðið vann sanngjarnan 2-1 sigur á meisturum Inter Milan í úrslitaleik. Þetta var annað árið í röð sem liðin mætast í úrslitaleik.
Roma réði algjörlega ferðinni í fyrri hálfleik og hefði með öllu átt að vera búið að skora áður en Philippe Mexes kom liðinu í 1-0. Rómverjar voru án Amantino Mancini og fyrirliðans Francesco Totti, en það virtist ekki koma að sök.
Somone Perrotta kom Roma svo í 2-0 þegar skammt var liðið á síðari hálfleikinn, en varamaðurinn Pele minnkaði muninn með þrumuskoti fyrir Inter. Lengra komust meistararnir ekki, en Inter lék án varnarmannsins Marco Materazzi og Julio Cruz í kvöld. Þeir tóku báðir út leikbann.
Zlatan Ibrahimovic satt allan tímann á varamannabekk Inter í leiknum, en hann var hetja liðsins í lokaumferð deildarinnar þegar hann kom inn sem varamaður og tryggði liðinu titilinn með frábærum leik.
Roma hefur eins og áður sagði unnið Inter í úrslitaleik tvö ár í röð, en þessi lið mættust einnig árin tvö þar á undan. Þar hafði Inter betur í bæði skipti.