Fótbolti

Calderon: Schuster fer hvergi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bernd Schuster og Ramon Calderon.
Bernd Schuster og Ramon Calderon. Nordic Photos / AFP

Ramon Calderon sagði í útvarpsviðtali að Bernd Schuster verði áfram knattspyrnustjóri Real Madrid á næsta keppnistímabili, sama hvað gerist.

Hann segir að þó svo að Real Madrid sé vissulega í góðri stöðu í titilbaráttunni sé ekkert öruggt. Liðið er með níu stiga forystu á Barcelona þegar sex umferðum er ólokið.

„Við erum í betri stöðu en önnur lið. Við þurfum samt að bíða þar til þetta er formlega í höfn," sagði Calderon. „Leikmennirnir vilja þó klára þetta sem allra fyrst. Við þurfum að vera bjartsýnir en halda okkur á jörðinni. Við erum bjartsýnir vegna forskotsins en þurfum að halda fullri einbeitingu."

En jafnvel þótt að Real Madrid verði ekki Spánarmeistarar segir Calderon að Bernd Schuster verði áfram knattspyrnustjóri liðsins.

„Ef við vinnum deildina verður Schuster áfram. Ef ekki, verður hann samt áfram. Þetta er langtímaverkefni. Schuster hefur það sem til þarf til að ná árangri. Við höfum trú á honum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×