Fótbolti

Fyrsta mark Eiðs Smára í deildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári smellir kossi á Ronaldinho sem sat á varamannabekk Barcelona í kvöld
Eiður Smári smellir kossi á Ronaldinho sem sat á varamannabekk Barcelona í kvöld Nordic Photos / AFP
Eiður Smári Guðjohnsen skoraði eitt mark í 3-0 sigri Barcelona á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Eiður Smári var fremur óvænt í byrjunarliðinu í kvöld en þeir Deco og Ronaldinho voru settir á bekkinn. Hann var fremstur á miðjunni, fyrir framan Toure og Xavi. Fremstur var Samuel Eto’o, Andrés Iniesta hægra megin og Lionel Messi vinstra megin. Eto’o skoraði fyrsta mark leiksins strax á tólftu mínútu eftir hafa leikið illa á varnarmenn Valencia. Börsungar voru með mikla yfirburði í leiknum og greinilegt að leikmenn liðsins voru búnir að hrista af sér slyðruorðið sem hefur fylgt liðinu á útivelli á tímabilinu. Eto’o bætti við öðru marki á 26. mínútu eftir glæsilegan samleik við Xavi og Messi. Undir lok hálfleiksins þurfti að bera Eið Smára út af eftir ljóta tæklingu Morientes. Eiður gat þó haldið áfram, sem betur fer. Aðeins tíu mínútum síðar þurfti hins vegar Morientes sjálfur að fara af velli vegna meiðsla. Hann var ekki sá eini því áður en hálfleikurinn var liðinn var Messi farinn af velli vegna meiðsla. Giovanni dos Santos kom inn á í hans stað og mátti Ronaldinho sitja sem fastast á bekknum. Yfirburðir Börsunga héldu áfram í síðari hálfleik. Á 61. mínútu var komið að Eiði Smára. Skot Xavi fer af varnarmanni Valencia og Giovanni fékk boltann. Í stað þess að freista þess að skora sjálfur ákveður hann að legga fyrir Eið Smára sem skorar af öryggi. Þetta reyndust lokatölur leiksins en Eiður Smári lék allan leikinn í kvöld. Eftir mark Eiðs Smára kom Deco inn fyrir Yaya Toure og Bojan Krkic fékk nokkrar mínútur þar sem Frank Rijkaard ákvað að hvíla Samuel Eto’o eftir vel unnin störf í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×