Fótbolti

Eiður: Held kyrru fyrir hjá Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður stekkur yfir leikmann Lyon, Kader Keita.
Eiður stekkur yfir leikmann Lyon, Kader Keita. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að afar ólíklegt sé að hann fari frá Barcelona í næsta mánuði er alþjóðlegi félagaskiptaglugginn opnar.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir hann að enginn hjá Barcelona hafi komið að máli við hann og rætt við hann um að hann sé á förum.

„Ég held bara áfram að berjast fyrir sæti mínu. Það tók sinn toll að vera meiddur í byrjun tímabilsins en það hefur sýnt sig að Barcelona þarf á öllum sínum leikmönnum að halda," sagði Eiður.

Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára og umboðsmaður, sagði í viðtali við útvarpsstöð á Spáni að vel gæti verið að hann færi frá Börsungum í janúar. Eiður sagði að ummælin hefðu verið oftúlkuð.

Hann segist alls ekki vilja missa af síðari hluta tímabilsins. „Mér fyndist ömurlegt að fara frá liðinu á miðju tímabili og ég tel litlar sem engar líkur á því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×