Fótbolti

Eiður ætlar að berjast fyrir sæti sínu

NordicPhotos/GettyImages

Eiður Smári Guðjohnsen segist ætla að halda áfram að berjast fyrir sæti sínu í liði Barcelona þó félagið sé við það að ganga frá samningi við framherjann Thierry Henry. Eiður segist ekki hafa heyrt neitt frá forráðamönnum félagsins.

"Ég veit að mikið er skrifað um að ég sé á förum frá Barcelona en ég hef ekki talað við neinn og vonast til að halda áfram hérna," sagði Eiður Smári í samtali við Marca í dag. Búist er við því að framherjinn Javier Saviola fari frá félaginu í sumar, en þar er fyrir úrvalslið framherja eins og allir þekkja.

"Það voru miklar væntingar gerðar til mín þegar ég kom og það er eðlilegt að fólk ætlist til meira af manni þegar maður skorar ekki mikið. Ég ætlast sjálfur til þess að fá meira frá mér. Ég mun hinsvegar verða betur í stakk búinn til að standa mig vel á næsta tímabili þar sem ég hef þá eins árs reynslu af því að spila hér á Spáni," sagði Eiður og ætlar að halda áfram ótrauður.

"Ég þarf bara að einbeita mér að því að bæta mig sem leikmaður og ég veit að þá verður auðveldara fyrir mig að fá fólk á mitt band. Það er hinsvegar ljóst að það verður mikil pressa á okkur á næstu leiktíð af því við unnum engan titil í ár en ég vil vera hér áfram," sagði Eiður Smári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×