Fótbolti

Edmilson: Við vorum sjálfum okkur verstir

Edmilson
Edmilson AFP

Brasilíski miðjumaðurinn Edmilson hjá Barcelona segir að félagið verði að taka til í herbúðum sínum í sumar, því ólga innan liðsins hafi að sínu mati kostað það dýrt í vetur og það verði að laga ef árangur á að nást á næsta tímabili.

Edmilson segir að einbeitingarleysi, óstöðugleiki og sjálfsmiðun ónefndra leikmanna liðsins hafi skemmt andann í herbúðum þess í vetur og því hafi liðið ekki náð jafn góðum árangri og í fyrra.

"Ég ætla ekki að fara út í smáatriði í þessu sambandi en það eru nokkrir hlutir í ólagi sem allir vita af og sumt af þessu hefur þegar lekið í fjölmiðla. Við spiluðum í sjö keppnum í vetur og hingað til hefur okkur aðeins tekist að sigra í Katalóníubikarnum og Meistarakeppninni. Það er ekki mikið. Ég get ekki sagt forráðamönnum liðsins nákvæmlega hvað þeir þurfa að laga en allir vita hvað er að. Þegar svona vandamál koma upp - verða menn að leysa þau," sagði Brasilíumaðurinn.

Barcelona á veika von um að tryggja sér meistaratitilinn á Spáni í lokaumferðinni um helgina, en þá þarf liðið að treysta á að Real Madrid takist ekki að sigra Mallorca á heimavelli sínum í síðustu umferðinni. Barcelona og Real eru efst og jöfn að stigum með 73 stig hvort - en Real hafði betur í innbyrðisviðureignum og verður því meistari ef liðin enda jöfn að stigum. Barcelona sækir Gimnastic Tarragona heim um helgina, en liðið er þegar fallið. Sevilla á líka raunhæfa möguleika á titlinum, en liðið spilar við Villarreal á heimavelli og er tveimur stigum á eftir toppliðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×