Fótbolti

Barcelona hrökk í gang

Leikmenn Barcelona höfðu ærna ástæðu til að fagna í kvöld.
Leikmenn Barcelona höfðu ærna ástæðu til að fagna í kvöld. MYND/Getty

Leikmenn Barcelona sýndu mátt sinn gegn Atletico Madrid í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið gjörsigraði andstæðinga sína með sex mörkum gegn engu á útivelli. Eiður Smári Guðjohnsen lék síðustu 10 mínútur leiksins. Hin tvö liðin í toppbaráttunni, Sevilla og Real Madrid, unnu einnig góða útisigra.

Toppbaráttan er því ennþá í járnum þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir. Barcelona og Real Madrid hafa bæði hlotið 69 stig en Sevilla er með 67 stig. Barcelona er þó með langbestu markatöluna og er því á toppnum.

Lionel Messi skoraði tvívegis fyrir liðið í dag, en Samuel Eto´o, Andreas Iniesta, Gianluca Zambrotta og Ronaldinho skoruðu sitt markið hver. Leikmenn Atletico sáu aldrei til sólar í leiknum en Barcelona lék sinn besta leik í langan tíma.

Roberto Carlos var hetja Real Madrid gegn Recretavio í dag þegar hann skoraði sigurmarkið í 3-2 útisigri liðsins í uppbótartíma. Ruud van Nistelrooy og Robinho höfðu komið Real Madrid í 2-0 en heimamenn jöfnuðu á síðasta stundarfjórðungi leiksins áður en Carlos skoraði sigurmarkið.

Freddi Kanoute skoraði sigurmark Sevilla gegn Deportivo á 83. mínútu fyrr í dag, en lokatölur urðu 2-1 fyrir nýkrýndum Evrópumeisturum félagsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×